Leituðu að manni við gosstöðvarnar

Eldgosið í Geldingadölum.
Eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Árni Sæberg

Leit var gerð að manni við gosstöðvarnar fyrr í vikunni. Tveir erlendir ferðamenn voru saman á svæðinu. Þegar annar þeirra skilaði sér ekki á bílastæðið við Fagradalsfjall eftir þriggja klukkustunda bið hins var haft samband við lögreglu.

Sá sem saknað var hafði verið illa klæddur og lítt búinn í langa göngu í slæmu veðri. Meðal annars var hafin neyðarleit á farsíma hans, að því er segir í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Maðurinn fannst nokkru síðar heill á húfi á farfuglaheimili á höfuðborgarsvæðinu. Hann botnaði ekkert í því hvers vegna hans hefði verið leitað. Félaga hans var tilkynnt að hann væri kominn í leitirnar.

Hreinsað út úr húsnæðinu

Í fyrrakvöld var tilkynnt var um þjófnað á lömpum úr gróðurhúsi í Keflavík til lögreglu. Gróðurhúsið var ólæst. Þá var einnig tilkynnt um þjófnað úr íbúðarhúsnæði. Þegar húsráðandi kom heim erlendis frá sá hann að brotist hafði verið inn og beinlínis hreinsað út úr húsnæðinu. Lögregla rannsakar bæði málin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert