Fjöldi starfandi í ferðaþjónustu dróst saman um helming 2020

Ljósmynd/Aðsend

Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta sinn tölfræði um vinnuafl í ferðaþjónustu. Samkvæmt tölfræðinni er ætlað að tæplega 12.600 einstaklingar hafi starfað við ferðaþjónustu hér á landi á árinu 2020 og hafi fækkað um nærri helming samanborið við fyrra ár.

Fjöldi starfandi í ferðaþjónustu hefur ekki mælst minni frá árinu 2013. Fjöldi vinnustunda dróst meira saman eða um tæplega 51% frá fyrra ári.

Á árinu 2020 fækkaði komum erlendra ferðamanna til Íslands um 81% borið saman við árið 2019 sem má rekja beint til áhrifa kórónuveirufaraldursins sem hafði umtalsverð áhrif á ferðaþjónustu hér á landi sem og annar staðar í heiminum.

Fjöldi starfandi í ferðaþjónustu jókst um tæplega 109%

Á árunum 2012-2018 jókst fjöldi starfandi í ferðaþjónustu um tæplega 109% eða um sem nemur 13% að meðaltali á hverju ári. Á sama tímabili fjölgaði komum erlendra ferðamanna hingað til lands um 20% að meðaltali á ári.

Árið 2019 mældist 8% samdráttur í komum ferðamanna til Íslands borið saman við fyrra ár. Á sama tímabili mældist lítil breyting á fjölda starfandi í ferðaþjónustu eða um 0,8% samdráttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert