Arnar Þór hættir sem héraðsdómari

Arnar Þór Jónsson hefur ákveðið að láta af embætti dómara.
Arnar Þór Jónsson hefur ákveðið að láta af embætti dómara. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í nýafstaðnum Alþingiskosningum, hefur ákveðið að láta af störfum sem dómari. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á Facebook-síðu Arnars Þórs ídag.

Kveðst hann hafa „tekið ákvörðun um að stíga út fyrir skorður dómskerfisins og nýta bæði meðbyr og mótbyr til að taka flugið á nýjum vettvangi.“

Arnar Þór var í fimmta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi en náði ekki inn á þing þar sem flokkurinn fékk aðeins fjóra kjörna. Mun Arnar þór við þetta verða varaþingmaður.

„Eftir viðburðaríka vegferð síðustu daga – og mánaða  - stend ég á krossgötum. Þótt þær liggi annars staðar en ég hafði vonað eru engin ljón í augsýn. Ég hef legið undir feldi síðustu daga og velt við öllum steinum um nútíð og framtíð. Dómaraembættið hefur hentað mér vel að sumu leyti, en umhverfið hefur þrengt að hugsun minni og oft hefur mér liðið eins og fugli í búri. Það besta við að kúpla mig frá þessu hlutverki síðustu mánuði er að mér hefur aftur liðið eins og frjálsum manni með sjálfstæða rödd. Ég hef verið frelsinu feginn og hjartað segir að ég eigi að velja leið frelsis. Á þessum forsendum hef ég tekið ákvörðun um að stíga út fyrir skorður dómskerfisins og nýta bæði meðbyr og mótbyr til að taka flugið á nýjum vettvangi. Ég mun njóta þess að tala, skrifa og vinna að mínum hugðarefnum laus við ytri fjötra með bjartsýni og trú að leiðarljósi,“ segir í yfirlýsingunni.

Arnar Þór hafði fyrir kosningarnar gefið í skyn að með því að stíga inn á vettvang stjórnmálanna kynni að koma til þess að hann myndi láta af störfum sem dómari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert