Gefa megi fólki fleiri skammta af bóluefni Pfizer

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um lyf fyrir menn (CMPH) hefur ályktað að gefa megi fólki með mjög veikt ónæmiskerfi aukaskammt af bóluefnum Pfizer og Moderna gegn Covid-19. Þá telur nefndin sömuleiðis að gefa megi fullbólusettum frískum einstaklingum örvunarskammt af bóluefni Pfizer. Hættan á sjaldgæfum aukaverkunum vegna þess er ekki þekkt.

Tilmæli nefndarinnar voru gefin út í kjölfar þess að niðurstöður rannsókna leiddu í ljós að aukaskammtur af bóluefnunum auki getu líkamans til að framleiða mótefni gegn kórónuveirunni, veirunni sem veldur Covid-19, í sjúklingum sem hafa fengið líffæraígræðslu og hafa veikt ónæmiskerfi.

Þó engar vísbendingar séu um að aukin geta til að framleiða mótefni hjá þessum sjúklingum veiti vörn gegn COVID-19, er áætlað að aukaskammtur muni auka vörn hjá a.m.k. hjá sumum sjúklingum. EMA mun því halda áfram að fylgjast með öllum gögnum sem möguleg eru til að meta árangur þessara bóluefna. Fylgiseðlar og samantekt um eiginleika lyfs fyrir bæði bóluefnin verða uppfærð í samræmi við þessi tilmæli,“ segir á vef Lyfjastofnunar Íslands um málið. 

Stjórnvöld í hverju landi fyrir sig fara með ákvörðunarvaldið

Þar er tekið fram að mikilvægt sé að gera greinarmun á viðbótarskammti fyrir fólk með veikt ónæmiskerfi og örvunarskammti fyrir fólk með eðlilegt ónæmiskerfi.

„Hvað varðar örvunarskammt fyrir fólk með eðlilegt ónæmiskerfi, hefur CHMP metið gögn fyrir Comirnaty [bóluefni Pfizer/BioNTech] sem sýnir hækkun á mótefnamagni líkamans hjá fólki á aldrinum 18 til 55 ára, eftir að það hefur fengið örvunarskammt 6 mánuðum eftir seinni skammt. Á grundvelli ofangreindra gagna hefur CHMP ákveðið að ráðleggja að það megi gefa fólki 18 ára og eldra örvunarskammt, a.m.k. 6 mánuðum eftir seinni skammtinn.“

Á vef Lyfjastofnunar segir þó að hættan á hjartabólgum eða öðrum mjög sjaldgæfum aukaverkunum eftir að örvunarskammtur hefur verið gefinn, sé ekki þekkt.

„Ákvörðun um framkvæmd bólusetninga fer fram í hverju landi fyrir sig, hvort heldur sem um grunnbólusetningu, viðbótar- eða örvunarskammta er að ræða. Enda eru stjórnvöld á hverjum stað best til þess fallin að meta út frá aðstæðum hver þörfin er.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert