Gróðursetja tvær milljónir trjáa í Sierra Leone

Verkefnið er meðal annars unnið í samstarfi við Rauða krossinn …
Verkefnið er meðal annars unnið í samstarfi við Rauða krossinn í Sierra Leone. Mynd/Rauði krossinn

Til stendur að gróðursetja tvær milljónir trjáa á tveimur árum í trjáræktarverkefni sem Rauði krossinn á Íslandi mun hefja á næstu vikum í nokkrum héruðum í Afríkuríkinu Sierra Leone. „Það er verið að stefna að endurheimt skóga, því þarf að gæta vel að því hvaða tré eru gróðursett og hvernig,“ útskýrir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins. Það er því að mörgu sem þarf að huga.

„Það sem gróðursetning trjáa gerir líka er að binda vatn í jarðveg. Í Sierra Leone er landið mjög berskjaldað fyrir flóðum og sú hætta hefur aukist síðust ár vegna loftslagsbreytinga. Með aukinni gróðursetningu í nágrenni við þessi veikburða samfélög er minni hætta á að flóð valdi skaða. Svo með tíð og tíma þegar trén vaxa, þá stuðla þau líka að auknu fæðuöryggi, meiri gróðursæld og hagsæld fyrir þessi samfélög.“

Þurfa að innleiða nýjar aðferðir við eldamennsku

Verkefnið er unnið í samstarfi við Rauða krossinn í Sierra Leone og Landgræðsluskólann, en Atli segir þetta mjög spennandi samstarf þar sem allir leggjast á eitt. Þau séu mjög heppinn að fá Landgræðsluskólann í lið með sér, sem komi með tæknilegan stuðning og sérhæfingu.

Til að stuðla að því að trén verið ekki felld jafnóðum þarf samhliða að fræða samfélögin um hvað er hægt að gera í staðinn. En á móti hverju felldu tré þarf að gróðursetja tvö.

Sjálfboðaliðar fá fræðslu og miðla sinni þekkingu áfram.
Sjálfboðaliðar fá fræðslu og miðla sinni þekkingu áfram. Mynd/Rauði Krossinn

„Samhliða þessu þarf að horfa á hvernig samfélög og heimili elda mat, af því það eru felld tré til að kveikja eld. Þannig við erum samhliða að leita að meira orkusparandi aðferðum við matseld fyrir heimilin. Markmiðið er að þau noti allt að 60 til 80 prósent minna eldsneyti, en eldsneytið eru tré sem eru felld,“ segir Atli.

Samfélögin sem eru valin eru samfélög þar sem Rauði krossinn er nú þegar að vinna samfélagslegt heilbrigðisverkefni. Koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum og stuðla að valdeflingu kvenna. Að sögn Atla er trjáræktarverkefnið viðbót við það verkefni og gerir það heildstæðara. Hluti af forvörnum í neyðarvörnum, en trjáræktarverkefnið er einnig hluti af Afríkuverkefni Alþjóða Rauða krossins þar sem markmiðið er að gróðursetja fimm milljarða trjáa fyrir árið 2030.

Sjálfboðaliðar fræða samþorpsbúa

Fræðsla er órjúfanlegur hluti af verkefninu. „Fræðslan fer fram til starfsmanna og sjálfboðaliða Rauða krossins í Sierra Leone. Svo munu sjálfboðaliðarnir fara út í þorpin og samfélögin og finna þar sjálfboðaliða sem hafa aukna ábyrgð með að fylgja eftir verkefninu og fræða sína samþorpsbúa um gildi þess að planta trjám. Hvaða tré þetta eru, hvað þarf að gera til að vernda þau og kynna aðferðarfræðina á bak við verkefnið fyrir samfélaginu. Þannig allir séu tilbúnir að bakka verkefnið upp.“

Hann segir það sama eiga við um önnur verkefni á svæðinu, þau séu öll byggð á heimafólkinu sjálfu með tæknilegri aðstoð frá Rauða krossinum á Íslandi og í Sierra Leone, ásamt alþjóðasambandi Rauða krossins.

Að lokum við Atli hvetja fyrirtæki og einstaklinga sem vilja taka þátt í svona verkefni að hafa samband og kanna hvaða möguleikar eru í stöðunni. Þá er nýbúið að setja á laggirnar sjálfbærnisjóð Rauða krossins sem er ætlað að styðja við verkefnið og önnur sambærileg sem styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. „Við beinum sjónum okkar sérstaklega að áhrifum loftslagsbreytinga, bæði í neyðarvörnum á vettvangi en líka í forvarnarverkefnum líkt þetta verkefni er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert