„Ofbeldi fylgir skemmtanalífinu“

Útlit er fyrir að álag á lögreglumenn sé að aukast …
Útlit er fyrir að álag á lögreglumenn sé að aukast að nýju eftir að samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins voru rýmkaðar. mbl.is/Eggert

Útlit er fyrir að álag á lögreglumenn sé að aukast að nýju eftir að samkomutakmarkanir vegna faraldursins voru rýmkaðar, en mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Þetta staðfestir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

„Nóg var að gera í miðbæ Reykjavíkur“ í nótt, segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Nokkuð var um slagsmál, rétt eins og á aðfararnótt laugardags.

Ekki óeðlileg þróun

Jóhann telur ofbeldismálum ekki vera að fjölga og að ekki sé um óeðlilega þróun að ræða.

„Átök og slagsmál hafa alltaf verið fylgifiskur skemmtanalífsins. Ég held þetta sé ekki að fara í neitt sérstakt óefni.“

Verulega hafi dregið úr útköllum vegna ofbeldismála þegar samkomutakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins voru sem harðastar. Nú þegar afgreiðslutímar skemmtistaða hafa verið lengdir og skemmtanalífið er að komast aftur á skrið sé fjöldi útkalla vegna ofbeldismála að ná jafnvægi aftur, að sögn Jóhanns.

„Þetta virðist vera að fara allt í gang aftur og við örugglega bara á leiðinni inn í venjulegt árferði. Ofbeldi fylgir skemmtanalífinu og því lengra sem líður á nóttina því ruglaðra verður fólk og ofbeldismálin alvarlegri.“

Löggæslan aukin í takt við aukið álag

Þá segir hann lögregluna ráða vel við álagið, inntur eftir því. Nú sé verið að auka löggæsluna í miðborginni aftur eftir að dregið hafi verið úr henni þegar faraldurinn stóð sem hæst.

„Við fylgjum bara þessari þróun. Ætli við verðum ekki komin í sama far og fyrir Covid núna í nóvember hvað löggæsluna varðar. Það tekur bara smá tíma því við röðum mönnum niður á vaktir þrjá mánuði fram í tímann. Við erum með þrjá bíla sem sinna bara miðborginni og svo erum við með alla hina bílana á höfuðborgarsvæðinu. Þannig við erum með nægan mannskap.“

Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn. mbl.is
mbl.is