Ásvallabraut opnuð

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Kristmundur Einarsson framkvæmdastjóri Snóks hf. …
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Kristmundur Einarsson framkvæmdastjóri Snóks hf. klipptu á borða og opnuðu Ásvallabrautina formlega. Ljósmynd/Hafnarfjarðarbær

Ásvallabraut í Hafnarfirði opnaði í dag fyrir umferð en framkvæmdir brautarinnar hafa staðið yfir frá vorinu 2020.

Þetta kemur fram í tilkynningu Hafnafjarðarbæjar.

Ásvallarbraut hefur verið á skipulagi í rúm 40 ár og átti upprunalega að liggja nær byggð í Áslandi 3. Síðan þá hefur skipulagið tekið ýmsum breytingum en endanleg lega brautarinnar var mörkuð af hagrænni greiningu á árinu 2017.

Ekið um nýju brautina.
Ekið um nýju brautina. Ljósmynd/Hafnarfjarðarbær

Tengir saman byggðasvæði

Opnun götunnar tengir saman tvö byggðasvæði sitt hvoru megin Ásfjalls, verða Skarðshlíð og hverfin ofarlega á Völlum nú betur tengd Kaldárselsvegi og Reykjanesbraut. Liggja nú tvær leiðir úr og í Vallahverfi, Skarðshlíð og Hamraness, en tvö síðarnefndu hverfin fara nú stækkandi.

„Ásvallabrautin er afar mikilvægur þáttur í uppbyggingu og eflingu byggðar í Hafnarfirði og mun gjörbreyta samgöngum og aðgengi inn á nýjustu íbúða- og atvinnusvæði bæjarins.  Ný mislæg gatnamót við Krýsuvíkurveg voru tekin í notkun í árslok 2017 og fyrir ári var opnað fyrir umferð á tvöfaldri Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð. Opnun Ásvallabrautar er enn einn liður í því að greiða samgöngur innan bæjarins og milli hverfa. [...] Ég óska íbúum Hafnarfjarðar og starfsfólki fyrirtækja á svæðinu til hamingju með nýju brautina og veit að hún mun nýtast vel,“ er haft eftir Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra Hafnarfjarðar í tilkynningunni.

2.300 íbúðir á stefnuskrá

Mikil uppbygging er nú í gangi í Skarðshlíð og Hamranesi en þar munu rúmlega tvö þúsund íbúðir rísa. Öllum lóðum þar hefur verið úthlutað fyrir íbúðirnar. Þar af rúmlega 1.700 í Hamranesi sem eru ekki komnar í sölu.

Hópurinn sem mætti til opnunar og tók þátt í samakstri …
Hópurinn sem mætti til opnunar og tók þátt í samakstri á nýrri leið á milli byggðasvæða í Hafnarfirði. Ljósmynd/Hafnarfjarðarbær

Fyrstu íbúarnir fluttu í Skarðshlíð sumarið 2019. Í Hamranesi eru framkvæmdir hafnar á 148 íbúðum í fjölbýli. Hyggst Bjarg íbúðafélag einnig byggja þar 148 íbúðir.

Þá er gert ráð fyrir að úthlutun á lóðum í Áslandi 4, fyrir tæplega 500 íbúðir, hefjist snemma á næsta ári.

„Það er mikil eftirspurn eftir lóðum og íbúðum í Hafnarfirði og því hefur allt kapp verið lagt á að hraða skipulagningu og greiða fyrir uppbyggingu bæði á nýjum svæðum og með þéttingu byggðar. Hafnarfjörður er einstakur og hlýlegur bær sem hefur allt til alls. Það er í forgrunni hjá okkur að  sinna núverandi íbúum vel en við munum sannarlega taka fagnandi á móti nýjum Hafnfirðingum,“ er einnig haft eftir Rósu.

mbl.is