Ógnað með hníf á Bankastræti Club

Birgitta segir atvikið leiðinlegt og að það sé skýr stefna …
Birgitta segir atvikið leiðinlegt og að það sé skýr stefna staðarins að þar sé ekki ofbeldi né ógnun af neinu tagi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveimur félögum var ógnað með hnífi á dansgólfi skemmtistaðarins Bankastræti Club að kvöldi laugardagsins 9. október. Mennirnir tveir hafa ekki sjálfir viljað segja frá atvikinu en félagi þeirra, Jakob Helgi Bjarnason, ákvað að tjá sig um málið á Twitter.

Í samtali við mbl.is segir Jakob að félagarnir tveir hafi verið á miðju dansgólfsins er þeir biðja aðila sem hafði verið að rekast á þá í sífellu um að færa sig. Aðilinn hafi þá brugðið sér frá í um hálfa mínútu en birst svo aftur með hníf sem hann beindi að öðrum þeirra og spurt: „Eru ekki allir góðir?“

Hann segir félaga sína tvo hafa orðið mjög óttaslegna og leitað til starfsmanna staðarins. Dyravörður hafi þá tekið aðilann með hnífinn afsíðis. Þá vilja þeir meina að aðilanum hafi ekki verið vísað út af staðnum, eða honum þá hleypt aftur inn. þar sem er þeir sjálfir gengu út hafi þeir séð hann enn vera þar inni.

Ljósmynd/Ágúst Óliver

Hann segir að lögregla hafi ekki verið kölluð til og að félagarnir gagnrýni skemmtistaðinn fyrir að hafa brugðist of lítillega við atvikinu.

„Þegar þeir labba út af staðnum er lögreglubíll þarna 50 metrum frá, þannig það er ekki eins og það væri mikið mál að kalla á lögguna,“ segir Jakob.

„Þeim fannst allavega viðbrögðin þegar þetta gerðist ekki nógu góð, þó svo að þeir hafi ekki verið að sækjast eftir eitthvað frekari viðbrögðum eftir á.“

Segir klárt mál að aðilanum hafi ekki verið aftur hleypt inn

Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi skemmtistaðarins, segist í samtali við mbl.is ekki hafa verið viðstödd þetta tiltekna kvöld en að starfsmanni skemmtistaðarins sem félagarnir leituðu til hafi verið tjáð að þeim hafi verið ógnað með hníf af öðrum gesti.

Hún segir atvikið leiðinlegt og að það sé skýr stefna staðarins að þar líðist hvorki ofbeldi né ógnun af neinu tagi. Hún segist hafa talað við starfsmann staðarins sem brást við atvikinu í dag til þess að hafa allar upplýsingar réttar.

Starfsmaðurinn hafi sagt það klárt mál að aðilanum hafi ekki verið hleypt aftur inn á staðinn eftir að honum var fylgt út, það standist einnig ekki rök að því leytinu til að atvikið átti sér stað rétt fyrir lokun.

Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi Bankastræti Club.
Birgitta Líf Björnsdóttir, eigandi Bankastræti Club. mbl.is/Kristinn Magnússon

Taldi ekki þörf á að kalla til lögreglu

„Hann sá náttúrulega aldrei þennan hníf en hann fylgir viðbragðsáætlun sem er að fara strax og tala við aðilann og koma honum út ásamt því að láta dyravörðinn vita. Hann gerði það strax og sagði að aðilinn hefði verið mjög rólegur og fylgt honum út og farið,“ segir hún.

„Það voru allir látnir vita að hann kæmi ekki aftur inn, hann taldi ekki þörf á því að kalla til lögreglu en sagði samt sjálfur eftir á að auðvitað ætti að hringja í lögregluna strax, það er í okkar áætlun.“

Hún segir að viðbragðsáætlun staðarins þegar svona atvik komi upp sé að vísa aðilanum út og að banna honum að koma aftur inn þar til eitthvað frekar komi í ljós. Það séu skoðaðar upptökur og farið yfir málið, lögreglu sé síðan gert viðvart ef að það á við, það sé mismunandi eftir atvikum.

„Þarna taldi starfsmaðurinn málið útkljáð af því að aðilinn var rólegur og fór út, var ekki með neitt mótlæti.“

mbl.is