Rannsókn á sýni kosti tugi þúsunda króna

Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis.
Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blóðsýni sem tekin eru á bráðamóttökunni vegna gruns um byrlun eru ekki send til rannsóknar nema að beiðni lögreglu. Þetta segir Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Kostnaður við rannsókn á einu sýni hlaupi á tugum þúsunda króna.

„Neyðarmóttakan er fyrir þolendur kynferðisofbeldis og þar er ekki sama verklag og á Bráðamóttökunni. Blóðsýni og þvagsýni eru alltaf tekin af brotaþolum sem koma á neyðarmóttökuna og þau geymd í sérstökum ísskáp. Sýnin eru svo afhent lögreglu ef málið er kært.“

Hafa fengið grunsamleg mál inn á borð til sín

Innt eftir því segir hún grunsamleg mál hafa komið inn á borð neyðarmóttökunnar með tilliti til byrlana. Það sé þó alltaf í höndum brotaþola að kæra og svo lögreglu að rannsaka, að sögn hennar.

Mál af þessu tagi séu þó vandmeðfarin enda mörg lyf sem geta komið til greina og takmarkað hve mörgum þeirra er hægt að skima fyrir á neyðarmóttökunni.

„Ef við ætlum að reyna finna lyf eða vímuefni þá þarf að vita hverju er verið að mæla fyrir. Eins og gefur að skilja getur verið mjög erfitt fyrir einstakling, sem kemur til okkar vegna gruns um byrlun, að vita hvaða efni það mögulega er.“

„Rannsóknakjarninn hjá okkur getur mælt etanól og metanól í blóði og skimað þvagsýni fyrir helstu fíkniefnunum. Þessar rannsóknir eru gerðar í klínískum tilgangi, þ.e. til greiningar og meðferðar sjúklinga.“

Ef greina á önnur fíkniefni eða lyf þarf að senda þau sýni til rannsóknar hjá rannsóknarstofu Háskóla Íslands í eiturefna- og lyfjafræði, sem sér um réttarlæknisfræðilegar eiturefnamælingar á Íslandi, að sögn Hrannar.

Almenn leit kostar fjörtíu þúsund krónur

Kostnaður við hverja rannsókn fari þó eftir því hverju er verið að mæla fyrir og hvort eitthvað finnist við mælinguna, að sögn Ásdísar Elvu Aðalsteinsdóttur, skrifstofustjóra hjá rannsóknarstofu Háskóla Íslands í eiturefna- og lyfjafræði. 

„Hver beiðni skiptist í fjóra eða fimm flokka og þá erum við bara að staðfesta í þvagi. Ef það er staðfest þá er það mælt tvisvar. Þá kostar einn flokkur, sem er með fimm eða sex efnum, 25 þúsund. Ef það mælist ekki þá kostar það í kringum 11 þúsund,“ segir hún.

Sé ekki vitað hvaða efni er verið að leita að er framkvæmd svokölluð almenn leit sem kostar um 40 þúsund krónur.

„Þá er bara leitað að einhverjum efnum og svo þarf að staðfesta þau sem mælast.“

Rannsóknin geti þó kostað vel yfir 100 þúsund krónur sé hakað í alla flokkana. Það sé þó sjaldan gert, að sögn Ásdísar.

„Ef það er hakað í alla þessa flokka þá er ódýrara fyrir okkur að framkvæma almenna leit. Því þá er fyrirséð að einhverjir flokkanna verði neikvæðir og þá þarf ekki að skoða þá neitt nánar.“

mbl.is