Aldrei verið ákært fyrir byrlun

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert byrlunarmál hefur komið á borð héraðssaksóknara. Þó hafa komið fyrir embættið kynferðisbrotamál þar sem brotaþola hefur grunað sig hafa orðið fyrir byrlun en ekki tekist að sanna það. Þetta segir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í samtali við mbl.is.

Sönnun á byrlun gæti leitt til þyngingar dóms

Kolbrún hefur fengið til sín mál þar sem ákært er fyrir kynferðisbrot, svo sem nauðgun, og brotaþola hefur grunað að sér hafi verið byrlað en ekki tekist að sanna það vegna skorts á gögnum.

Hún segir að ef hægt væri að sanna byrlun í máli þar sem kynferðisbrot hefur átt sér stað myndi byrlunin mögulega geta leitt til þyngingar dóms. Því sé mikilvægt fyrir brotaþola að leita strax til læknis til að tryggja gögn, þar sem nauðgunarlyf eru fljót að fara úr líkamanum.

Spurning hvort byrlun án kynferðisbrots geti leitt til sakfellingar

Spurð hvort hægt væri fyrir ákæruvaldið að fara með mál fyrir dóm þar sem einstaklingi hafi verið byrlað, en kynferðisbrot hafi ekki verið framið, segir Kolbrún að slíkt mál yrði skoðað vel. 

„Við myndum skoða svoleiðis mál mjög vel. Það er ekki refsilaust að gefa fólki, án þess vitundar, efni sem hafa áhrif á það, en það fer eftir því hvert efnið er og hver tilgangurinn er og hvað maður getur sannað og undir hvaða ákvæði það myndi falla.

Ef hægt er að sanna byrlun í kynferðislegum tilgangi þá væri hugsanlega ákært fyrir tilraun til nauðgunar. Ef ekki er hægt að sanna þennan tilgang er hægt að skoða hvort málið sé brot á lyfjalögum eða sé hættubrot, ef efnið sem viðkomandi var byrlað gæti sett hann í einhverja hættu. Ef að einstaklingur sem verður fyrir byrlun slasast þá væri mögulega hægt að fella það undir líkamsárás,“ segir Kolbrún.

Spurð hvort hægt væri að fella slík mál undir tilraun til manndráps segir Kolbrún það langsótt, þar sem nauðgunarlyf leiði alla jafna leiði ekki til andláts, en segir að skoða verði hvert mál fyrir sig. 

mbl.is