„Þetta er alvarleg frelsissvipting“

„Það er svo rosalega galið að einhver hafi fyrir því …
„Það er svo rosalega galið að einhver hafi fyrir því að verða sér úti um svona efni, mæta með þau á staði og setja þetta í drykki,“ segir Fanney.

Ung kona sem lenti í því á föstudagskvöld að henni var byrluð ólyfjan segir mikilvægt að fólk átti sig á alvöru málsins. Um sé að ræða alvarlega frelsissviptingu og að í verstu tilvikunum geti byrlun jafnvel endað með andláti.

Konan, Fanney Sandra Albertsdóttir, fór út að borða með vinum sínum á föstudagskvöld. Þar drakk hún tvo áfenga drykki. Síðan var ferðinni heitið á skemmtistað þar sem hún drakk einn drykk. Á um það bil korteri breyttist ástand hennar verulega, hún fór hún frá því að vera nánast bláedrú og í að líða eins og hún væri mjög drukkin, sem passaði illa við það litla áfengismagn sem hún hafði innbyrt á rúmum fjórum klukkustundum.

„Mér fór að líða rosalega skringilega, allt í einu hætti ég að geta staðið í lappirnar, ég gat ekki haldið á neinu, var alltaf að missa símann minn og svo bara datt ég út og man ekki meir,“ segir Fanney í samtali við mbl.is.

Gat hvorki hreyft sig né talað

Sem betur fer tók vinur hennar eftir því að það var ekki allt með felldu og fylgdi henni út af skemmtistaðnum.  

„Ég er mjög fegin að vinur minn tók eftir því að eitthvað var að og fór með mig þarna vegna þess að ég hefði ekki getað reddað mér sjálf. Ég hefði ekki getað tekið upp símann eða hringt í neinn,“ segir Fanney.

Þegar hún kom heim til vinar síns versnaði ástandið og hún féll í gólfið.

„Það var mjög skrýtið vegna þess að hausinn á mér virtist vera í lagi, ég heyrði það sem vinir mínir voru að segja við mig en ég náði ekki að segja neitt til baka. Ég náði ekki að tala eða hreyfa mig, sama hvað ég reyndi. Hausinn á mér virtist virka en það var engin tenging við líkamann, það var eins og ég ætti ekki möguleika á að hreyfa mig,“ segir Fanney.

Hún sagði frá sinni reynslu á samfélagsmiðlinum Instagram í gær.

„Ég ákvað að vekja athygli á þessu af því fólk þarf að átta sig á alvarleika málsins. Þetta er stórhættulegt og of stór skammtur af þessu getur jafnvel dregið fólk til dauða. Þetta er alvarleg frelsissvipting að lamast svona tímabundið og það ætti að vera til refsirammi sem hæfir alvarleika brotsins,“ segir Fanney.

Fanney segist fegin að ekki hafi farið verr. Hún kallar …
Fanney segist fegin að ekki hafi farið verr. Hún kallar eftir refsiramma sem hæfi alvarleika svona brota. mbl.is/Ari

„Galið“ að fólk komist upp með það að byrla öðrum eitur

Birgitta Líf Björns­dótt­ir, einn af eigendum skemmti­staðar­ins Banka­stræti Club, sagði í samtali við mbl.is í vikunni að byrl­unaratvik­um hefði fjölgað veru­lega á skemmtistöðum í miðbæ Reykja­vík­ur síðastliðnar helg­ar. Hún lík­ti ástand­inu við ein­hvers kon­ar far­ald­ur.

„Það er náttúrlega alveg galið að fólk skuli komast upp með þetta, og það er bara eitthvað sem allir vita. Ætli það sé ekki ástæðan fyrir að það er svona mikið um þetta og menn eru þess vegna ekki hræddir við að nota þetta, af því þeir vita að refsingin er engin og það er erfitt að sanna byrlun. Þetta fer hratt úr blóðinu og virðist bara mælast sem mikið áfengismagn,“ segir Fanney.

Hún er enn að jafna sig eftir föstudagskvöldið.

„Maður býst aldrei við því að lenda í svona þótt ég hafi heyrt af svona tilvikum. Það er líka bara svo rosalega óþægileg staða að hafa enga stjórn yfir líkamanum og geta ekki hreyft sig.“

Frá skemmtanalífinu í miðborg Reykjavíkur í sumar.
Frá skemmtanalífinu í miðborg Reykjavíkur í sumar. mbl.is/Ari

„Virkilega sjúkt“ að skipuleggja svona lagað 

Aðspurð segir Fanney erfitt að hugsa út í það sem hefði gerst ef vinir hennar hefðu ekki áttað sig á stöðunni.

„Ég veit ekki hvað hefði gerst ef þau hefðu farið aðeins á undan mér heim, hvort ég hefði bara dottið í gólfið á skemmtistaðnum eða hvað. Ég er mjög fegin að þau fóru strax með mig heim,“ segir Fanney.

Hún veit ekki hverju var blandað í drykkinn hennar en hefur eftir á lesið sér til um þau lyf sem notuð eru til byrlunar.

„Ef maður fær of stóran skammt af einhverju svona getur maður bara dáið. Það getur valdið lömun í hálsinum og maður getur kafnað.“

Hvað hefurðu að segja við þá sem byrla?

„Það er svo rosalega galið að einhver hafi fyrir því að verða sér úti um svona efni, mæta með þau á staði og setja þetta í drykki. Það er virkilega sjúkt að einhver geri þetta allt, þetta þarf alveg plan fyrir fram,“ segir Fanney.

mbl.is