Tvö byrlanamál til rannsóknar eftir helgina

Lögregla rannsakar nú tvö mál þar sem grunur er um …
Lögregla rannsakar nú tvö mál þar sem grunur er um byrlun. mbl.is/Ari

Tvö mál voru tilkynnt til lögreglu síðustu helgi þar sem grunur er um byrlun og eru málin bæði til rannsóknar. Þetta segir Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðstjóri ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Mikil umræða hefur átt sér stað um byrlanir síðustu vikur og mánuði og virðist það vera tilfinning margra sem stunda skemmtanalífið að slíkum málum sé að fjölga. Í október síðastliðnum sagði Birgitta líf Björnsdóttir, eigandi skemmtistaðarins Bankastræti Club, að byrlunum hefði fjölgað verulega á skemmtistöðum í Reykjavík og líkti ástandinu við faraldur.

Fá mál hafa hins vegar ratað inn á borð til lögreglunnar, en Hulda Elsa segir lögregluna hafa verið í vandræðum með utanumhald byrlanamála þar sem ekki sé um sérstök brot að ræða og málaskráin sé að mestu leyti byggð upp í kringum brot.

Hulda Elsa viðurkennir að byrlanir séu ekki auðveldustu brotin að …
Hulda Elsa viðurkennir að byrlanir séu ekki auðveldustu brotin að sanna. Ljósmynd/Lögreglan

„Við höfum ráðið bót á því með því að vera með sérstaka merkingu inni í málaskránni hjá okkur þannig við getum fundið þessi mál,“ segir Hulda Elsa, en tekur þó fram að tölfræðin hafi ekki verið tekin saman.

„Það er hins vegar alveg ljóst að umræðan er í þá átt eins og að þessum málum sé að fjölga, en hvort þetta sé þannig, eða eins og hefur verið rætt um og læknar hafa líka bent á, að það er svo margt sem getur haft áhrif á viðkomandi annað en byrlun.“

Man ekki eftir nýlegu máli þar sem er rökstuddur grunur

Þrátt fyrir umræðu um fjölgun tilfella virðast sönnunargögn oft ekki vera til staðar og því ekki hægt að hefja rannsókn á málum.

„Ég man ekki eftir máli sem hefur komið til okkar nýlega þar sem við erum með rökstuddan grun um að manneskju hafi hreinlega verið byrlað. Það hafa ekki verið nein bein sönnunargögn um það, en við erum þó að skoða þessi mál sem tilkynnt var um síðustu helgi.

En fólk er að tala um þetta og segja frá þessu og þess vegna er mjög mikilvægt að við tökum þetta mjög alvarlega og reynum að sinna þessu eins og best verður á kosið og tryggja þá sönnunargögnin ef það er mögulegt.“

Rannsókn á sýnum í byrlanamálum sé hins vegar mjög kostnaðarsöm og því mikilvægt að lögregla hafi rökstuddan grun um að byrlun hafi átt sér stað, áður en farið er af stað í slíka rannsókn.

„Það að senda sýni í rannsókn kostar töluverðan pening og getur hlaupið á einhverjum hundruðum þúsunda. Þannig við þurfum að taka ákvörðun um hvort við séum að stofna til svo umfangsmikils kostnaðar við rannsókn á máli. Þá verðum við að sjálfsögðu að hafa eitthvað í höndunum um að viðkomandi hafi verið byrlað,“ útskýrir hún.

Kostar minna að mæla áfengismagn

Áfengismagn í blóði getur líka spilað inn í. „Það kostar minna að mæla áfengismagn í blóði og þegar niðurstaða úr slíkri mælingu sýnir að áfengismagnið er komið yfir t.d. 2 prómill þá gæti það eitt og sér útskýrt að brotaþoli fari í það ástand að honum sé ekki sjálfrátt og upplifi að sér hafi verið byrlað þótt ekkert annað sé í hendi sem styðji það. “

Það er því ýmislegt sem getur haft áhrif þegar tekin er ákvörðun um hvort talið er réttlætanlegt að hefja rannsókn eða ekki. Stundum hefur framburður viðkomandi úrslitaáhrif.

Lögreglan hefur meðal annars séð bráðamóttökunni fyrir sérstökum sýnaglösum til …
Lögreglan hefur meðal annars séð bráðamóttökunni fyrir sérstökum sýnaglösum til að tryggja varðveislu sýna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Svo getur verið eitthvað í framburði viðkomandi sem er þess valdandi að það sé rétt að skoða þetta alla leið og fá myndbandsupptökur eða fara í rannsókn með því að ræða við vitni og fleira. Þannig að það er svolítið erfitt að gefa út ákveðna línu hvernig þetta er allt saman. Það fer svolítið eftir atvikum hverju sinni hvernig er farið í málin.“

Mismunandi í hvaða farveg málin fara

Þegar grunur er um byrlun skiptir máli hvort einnig er grunur um kynferðisbrot og hvort viðkomandi er með meðvitund eða ekki, en þessi mál fara ekki öll í sama farveg.

„Svo getur þessi háttsemi verið þáttur í nauðgun og að það sé verið að byrla  manneskju í því skyni að nauðga henni. Þegar það er tilraun til nauðgunar eða nauðgun þá er auðvitað sjálfgefið að fólk getur farið á neyðarmótttökuna. Ef það liggur ekki fyrir þá er spurning um hvernig á að gera þetta,“ segir Hulda Elsa.

Þegar lögreglu er tilkynnt að einhverjum hafi hugsanlega verið byrluð ólyfjan og manneskjunni er ekki sjálfrátt, þá sér lögreglan um að viðkomandi sé fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttökuna og sýni eru tekin þar að ákvörðun lækna. Neiti læknar hins vegar að taka sýni getur lögreglan reynt að fara fram á dómsúrskurð, en Hulda Elsa segir það metið hverju sinni.

Í samstarfi við bráðamóttöku um að vinna mál hraðar

„Þegar viðkomandi leitar til bráðamóttöku og telur að sér hafi verið byrlað og er alveg sjálfrátt, þá vísar bráðamóttakan á okkur og við tökum sýnin. Þarna er mikilvægt að við séum í góðu samstarfi,“ segir Hulda Elsa, en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið í samstarfi við bráðamóttökuna um vinna mál hraðar og á öruggari hátt. Lögreglan hefur meðal annars tryggt bráðamóttökunni sýnaglös til að tryggja varðveislu sýnanna.

Hulda Elsa kannast ekki við mál hér á landi þar …
Hulda Elsa kannast ekki við mál hér á landi þar sem fólk er sprautað með ólyfjan. mbl.is/Ari

Hulda Elsa segir starfsmenn á bráðamóttöku einnig hafa ákveðið verklag en ekki megi gleyma því að á þeim hvílir þagnarskylda. Lögregla hefur því aðeins aðkomu að hluta þeirra málu sem þangað koma inn.

„Við erum í stöðugu sambandi við yfirmenn bráðadeildar þar sem við ræðum þessa hluti og við fundum reglulega með yfirmönnum bráðadeildar og geðdeildar og förum meðal annars yfir svona mál og fleiri, hvernig við getum bætt okkar verklag þegar báðir aðilar eru með aðkomu að máli.“

Efni í 12 til 48 klukkustundir að fara úr líkamanum 

Mismunandi er hve lengi efni sem notuð eru við byrlun eru að fara úr líkamanum en Hulda Elsa segir þennan tíma geta verið allt frá 12 upp í 48 klukkustundir. Það fari allt eftir lyfinu.

„Ef áfengisneysla kemur við sögu má gera ráð fyrir að það þurfi þá minni skammta af þessum lyfjum til að ná þessum byrlunaráhrifum eða ná tilætluðum árangri. En eins og ég segi þá er kannski bæði óljóst hvert brotið er og það er ekki vitað hvert lyfið er. Þannig að ef það er grunur um byrlun og við erum með blóðsýni þá metum við hvað hverju sinni hvort við setjum það áfram í rannsókn eða ekki.

Það skal alveg viðurkennast að þetta eru ekki auðveldustu brotin til að sanna. En það er alltaf hægt að gera eitthvað og lykilatriðið er að koma sem fyrst til okkar til að tryggja sýnin og láta okkur vita ef þeir telja að það séu einhver sönnunargögn sem hægt sé að afla.“

Hluti af skipulagðri brotastarfsemi erlendis

Hulda Elsa segir mikilvægt fyrir lögreglu að skoða málin með því hugarfari að hún viti ekki alltaf hvað er í gangi.

„Maður heyrir það til dæmis erlendis frá að þar sé grunur um að þetta sé hluti af skipulagðri brotastarfsemi. Þannig að það er allt undir í þessu.“

Þá hafa borist fréttir af því erlendis frá að fólk sé sprautað til að ná fram byrlunaráhrifum og í umræðunni hér á landi hefur komið fram að einhverjir telji sig hafa lent í því. Hulda Elsa kannast við þessa umræðu en veit ekki til þess að slíkt mál hafi komið inn á borð lögreglu hér á landi.

Getur fallið undir líkamsárásarákvæði 

Ekki er neitt refsákvæði í refsilöggjöfinni sem tekur beint til byrlana sem slíkra. Hins vegar getur sú háttsemi að byrla einhverjum ólyfjan hugsanlega varðað refsingu samkvæmt líkamsárásákvæði í almennum hegningarlögum, að sögn Huldu Elsu.

Aldrei hefur hins vegar verið ákært fyrir byrlun og því hefur aldrei reynt á það hvort háttsemin fellur undir þetta refsiákvæði.

Hins vegar hefur verið ákært og dæmt í málum þar sem um byrlun var að ræða í tengslum við kynferðisbrot, meðal annars þar sem smjörsýra var notuð.

 

mbl.is