Borgin ætlar að fá álit frá fleirum en 60+

Lagt er til að svæðið frá Grímsbæ að Tunguvegi verði …
Lagt er til að svæðið frá Grímsbæ að Tunguvegi verði að sérstöku þróunarsvæði og götunni breytt í borgargötu. Ljósmynd/ Reykjavíkurborg

Reynt verður að ná til breiðari hóps íbúa í Bústaðahverfi en áður með netkönnun, þar sem íbúum gefst kostur á því að segja sína skoðun á fyrirhugaðri uppbyggingu í hverfinu

Hingað til hefur heldur einsleitur hópur tjáð sig um uppbygginguna og að mestu leyti verið andsnúinn henni. 

Ævar Harðarson, deildarstjóri hverfisskipulags Reykjavíkurborgar, segir að borgin vilji fá fjölbreyttari hóp til að tjá sig. Hann vonast þannig til að ungt fólk hefji upp raust sína í auknum mæli, enda sé verið að byggja til framtíðar. 

„Við ætlum að fara af stað með könnun á næstunni til að kanna viðhorf fólks, því það verður alveg að segjast eins og er, þessi viðhorf sem komin eru fram endurspegla ekki alla íbúa. Þetta er fyrst og fremst eldra fólk,“ segir Ævar við mbl.is og minnir á að tillögurnar sem nýverið voru kynntar séu vinnutillögur á frumstigi og að þær muni eftir atvikum breytast í takt við athugasemdir íbúa. 

Ævar Harðarson, deildarstjóri hverfisskipulags Reykjavíkurborgar og arkitekt með áratuga reynslu.
Ævar Harðarson, deildarstjóri hverfisskipulags Reykjavíkurborgar og arkitekt með áratuga reynslu. Skjáskot/Reykjavíkurborg

Aðallega fólk yfir sextugu sem hefur tjáð sig

Hann segir þó að vel hafi verið mætt á kynningarfundi um fyrirhugaða uppbyggingu, sem tvisvar hafa verið haldnir, og þar að auki sé fjölmennt í gönguferðir um hverfið þar sem uppbyggingin er kynnt.

„Við viljum gjarnan gefa þeim yngri tækifæri, þeir hafa aðeins verið að tjá sig en það er erfitt að tala um þetta á samfélagsmiðlum vegna þess að þar verður umræðan oft heiftarleg. Facebook virðist ekki alveg vera rétti vettvangurinn, þannig þetta yngra fólk sem hefur verið að tjá sig á jákvæðan hátt hefur verið að fá, heyrist mér, svona frekar neikvæðar athugasemdir,“ segir Ævar. 

Spurður að því hvort borgaryfirvöld séu hreinlega að reyna að fiska jákvæð viðbrögð í stað þess að gefa þeim viðbrögðum gaum sem nú þegar hafa komið fram, segir Ævar að verið sé að skipuleggja fyrir framtíðina og því þurfi samráð við íbúa að taka einnig mið af því. 

„Já, já. Ég veit að íbúalýðræði virkar þannig að þeir sem tjá sig, þeir tjá sig og hafa gjarnan hátt. En við erum líka að skipuleggja fyrir framtíðina, þannig það verður að vega og meta þetta,“ segir Ævar og bendir á borgaryfirvöld séu enn að þróa hvernig íbúalýðræði og samráð við íbúa skuli háttað og þannig sé í raun verið að „prófa sig áfram“ í þeim efnum. 

Hugmynd ráðgjafa hverfisskipulagsins að breyttu skipulagi við Grímsbæ í Bústaðahverfi.
Hugmynd ráðgjafa hverfisskipulagsins að breyttu skipulagi við Grímsbæ í Bústaðahverfi. Ljósmynd/Jakob Jakobsson arkitekt og Trípólí arkitektar

Mark tekið á athugasemdum

Hann segir að þegar ráðist var í samráð borgaryfirvalda með íbúum í Breiðholti, vegna framtíðaruppbyggingar þar í fyrra, hafi verið haft samráð við alls kyns hópa sem mynda íbúaheildina. Þannig var haft samráð við börn, sem Ævar segir að hafi allt aðra hagsmuni en fullorðnir, og sérstaklega var ráðist í að auka aðgengi fólks af erlendum uppruna að samráðsferlinu. 

Annars segir Ævar vera bjartsýnn á framhaldið. 

„Okkur finnst þetta skemmtilegt og við vorum ekkert að búast við því að það yrðu allir svakalega ánægðir með breytingarnar, enda er það alltaf þannig,“ segir Ævar og bætir við að í fyrra hafi um 250 athugasemdir borist vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í Breiðholti. 

„Og við gerðum verulegar breytingar á tillögunum samkvæmt því sem við fengum frá íbúum. Það kemur alltaf upp sú spurning hvort eitthvað mark sé tekið á athugasemdum sem berast og svarið við því er já.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert