Þórólfur ómyrkur í máli í nýjum upplýsingadálki

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er ómyrkur í máli í sinni fyrstu …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er ómyrkur í máli í sinni fyrstu færslu á covid.is, sem birtist í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýjum upplýsingadálki hefur verið bætt við á covid.is, sem ber heitið „Frá sóttvarnalækni“, en þar mun Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fara yfir stöðuna flesta virka daga vikunnar, til þess að halda almenningi og fjölmiðlum upplýstum, líkt og komist er að orði í tilkynningu frá samskiptafulltrúa almannavarnadeildar.

Sóttvarnalæknir er ómyrkur í máli í fyrstu færslunni, sem birtist í dag. Kemur þar fram að fyllsta ástæða sé til að hafa áhyggjur af núverandi þróun Covid-19 á Íslandi, en með vaxandi afléttingu takmarkana hafi dreifing smits aukist.

2% smitaðra lagst inn á sjúkrahús

11 einstaklingar liggja nú á spítala með Covid-19 og einn á gjörgæsludeild en síðustu vikur og mánuði hafa um 2% þeirra sem greinast lagst inn á sjúkrahús, 0,4% lagst inn á gjörgæsludeild og um 0,2% þurft aðstoð öndunarvéla en um helmingur smitaðra var fullbólusettur.

„Þó að útbreidd bólusetning komi í veg fyrir smit og einkum alvarleg veikindi þá virðist hún ekki duga til að stöðva þá bylgju sem nú er í gangi né heldur að koma í veg fyrir innlagnir alvarlegra veikra,“ segir í færslu Þórólfs, en þó hefur sýnt sig að bólusetning veitir almennt vörn gegn alvarlegum veikindum.

Innlagnir komi einnig niður á annari þjónustu

Endar færslan á þessum orðum: „Rétt er að hvetja alla til að huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum svo síður þurfi að koma til opinberra takmarkana á umgengni fólks. Munum að margar innlagnir á sjúkrahús koma ekki einungis niður á umönnun þeirra sem veikst hafa alvarlega af COVID-19 heldur einnig annarri mikilvægri þjónustu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert