„Hún var bara að fara byrja lífið“

Leit stendur yfir af hinni 18 ára gömlu Telmu Líf …
Leit stendur yfir af hinni 18 ára gömlu Telmu Líf Ingadóttur sem hvarf á Spáni í gær. Ljósmynd/Facebook

Leit að hinni 18 ára gömlu Telmu Líf Ingadóttur, sem hvarf á Spáni í gær, hefur enn ekki borið árangur. Stjúp­móðir Telmu, Guð­björg Gunnars­dóttir, segir í samtali við mbl.is að lögreglan geti ekkert gert fyrr en 72 tímar eru liðnir frá því Telma týndist.

Uppfært

Telma er fundin.

„En þar sem síminn hennar og allar eigur fundust á sjúkrahúsinu fórum við strax í að lýsa eftir henni því það er ekkert eðlilegt. Það lætur sig engin fullorðin manneskja hverfa og skilur eftir alla peninga sína og persónumuni. Hún kemst ekki neitt án þess að hafa þá.“

Guðbjörg segir fjölskyldu og vini Telmu hafa gengið hálfa Benidorm-ströndina með mynd af henni en ekkert hafi spurst til hennar ennþá.

„Við erum búin að fá allar tóbaksbúðir á Spáni til að láta mynd af henni ganga á milli sín. Það er mynd af henni á öðrum hverjum bar og vinir Telmu, sem voru að vinna með henni á bar hérna niðri á ströndinni, eru farnir að leita að henni líka.“

Var nýflutt til Benidorm

Telma hafði búið með stjúpmóður sinni og föður, Inga Karli Sigríðarsyni, á Spáni í tvö ár en hafði svo flutt út þegar hún fékk vinnu á Benidorm, að sögn Guðbjargar.

„Hún var bara að fara að byrja lífið og var svo jákvæð fyrir öllu þegar hún fór frá okkur. Hún var búin að ákveða að koma í heimsókn til okkar eftir nokkra daga og vera yfir helgina.“

Sveinn H. Guðmarsson upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins segir málið vera á borði borgaraþjónustunnar en gat annars lítið tjáð sig um málið, inntur eftir því.

„Við bara veitum fjölskyldunni hefðbundna aðstoð. Það er kannski fyrst og fremst milliganga gagnvart stjórnvöldum og annað í þeim dúr, túlkun og þvíumlíkt,“ segir hann.

mbl.is