Urður Egilsdóttir
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segist í samtali við mbl.is sjá fyrir endann á stjórnarmyndunarviðræðum og að þær gangi vel. Rúmlega mánuður er síðan Alþingiskosningar fóru fram og hafa formenn stjórnarflokkanna fundað nánast daglega.
„Við sjáum alveg til lands í þessu samtali,“ segir Sigurður Ingi. Hann segist ekki geta sagt til um hvenær niðurstaða verði ljós og segir það spila inn í að um helgina taki við stutt hlé á meðan hann og Katrín Jakobsdóttir fari á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow og Sigurður Ingi síðan á þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
„Í lok næstu viku höldum við áfram og þá verður vonandi ekki langt í það að við förum að sjá til enda á viðræðunum.“
Sigurður Ingi segir að allt sé undir í viðræðunum nú. „Við erum annars vegar að fara í gegnum heildarmálefnin og svo sérstaklega þau málefni sem eru augljóslega áskoranir næstu ár svo sem þessi græna fjárfesting og hvernig við tökumst á við loftslagsmálin.“