Segir félaga í Eflingu eiga rétt á upplýsingum

Guðmundur Baldursson segir að félagsmenn eigi rétt á því að …
Guðmundur Baldursson segir að félagsmenn eigi rétt á því að vita hvað er að gerast. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundi Baldurssyni, stjórnarmanni í Eflingu, þykir stórundarlegt að nýir stjórnendur í Eflingu láti ekki ná í sig, en hvorki hefur náðst í Agnieszku Ziólowska, nýjan formann, né Ólöfu Helgu Adolfsdóttur varaformann frá því þær tóku við.

„Það eru 26 eða 27 þúsund félagar í þessu félagi og þeir fá engar fréttir. Það hlýtur að vera krafa hvers félagsmanns, eftir öll þessi djöfulsins læti, að fá að vita hvað er verið að gera þarna. Hvaða úrræði á að nota til að lægja öldurnar þarna inni á skrifstofunni og hvernig á að taka á þessari óánægju og vanlíðan sem fólk var að upplifa,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is. „Það er ekki hægt að loka öllum dyrum og enginn fær að vita neitt,“ bætir hann við.

Guðmundur bendir á, eins og fram hefur komið, að hans skoðun sé sú að Agnieszka ætti líka að stíga til hliðar þar sem henni hafi verið vel ljóst hver staðan var. „Hennar viðbrögð voru þau að kalla mig rasista, af því hún er af erlendu bergi brotin. Það kannski sýnir rökþrotið hjá þessu fólki, að grípa í eitthvert svona rugl.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður, sagði jafnframt í færslu á Facebook-síðu sinni í síðustu viku að Guðmundur ætti að skammast sín fyrir að segja að Agnieska ætti að líka að segja af sér.

Stjórnin fundar loksins í dag

Meirihluti stjórnar Eflingar hefur hvatt Guðmund til að segja sig úr stjórninni, en hann var duglegur að gagnrýna starfshætti og stjórnun Sólveigar. Eftir að hún sagði af sér hefur meirihluti stjórnar ítrekað gefið það út að stjórnin hafi stutt allar ákvarðanir hennar. Þar á meðal Agnieska, sem gegndi áður embætti varaformanns.

Stjórn Eflingar fundar í fyrsta skipti í dag eftir að ný forysta tók við stjórnartaumunum og í kvöld fer fram mánaðarlegur fundur í trúnaðarráði Eflingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert