Skorar á Íslendinga í umhverfismálum

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs á Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar í …
Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs á Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar í dag. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Til að ná markmiðum Parísarsamningsins, um að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C og leita leiða til að takmarka hlýnun við 1,5°C, þurfum við að fara frá loforðum yfir í efndir og horfa meira á árangur en fyrirætlanir. Þetta sagði Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, á loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar í Hörpu í dag.

Lágkolefnishagkerfið brátt eina hagkerfið

„Það er margt sem er skýrara núna eftir ráðstefnuna og þurfum við að vera þakklár fyrir það. Það er mun skýrari samstaða um nauðsyn þess að stefna að lægri mörkum þess öryggisbils sem var skilgreint í París en við erum ekki ennþá komin með áætlanir sem koma okkur þangað,“ sagði hann.

Það sé þó mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að metnaður ríkja sé tengdur lausnunum heima fyrir og því sé ákveðið samspil milli þess árangurs sem er verið að ná í baráttunni við loftslagsvána og metnaðarins sem stjórnvöld viðkomandi ríkja treysti sér til þess að leggja fram á alþjóðavettvangi, að sögn Halldórs.

„Þess vegna eru landsframlögin oft nær því að vera gólfið á metnaðinum heldur en hámarkið. Við eigum með öðrum orðum meira inni og það er mjög mikilvægt.“

Þá sé einnig mikilvægt að leiðandi aðilar í fjármálakerfinu leiti leiða út úr jarðefnahagkerfinu og að þeim fjárfestingum sem komi til með að skila arði í lágkolefnishagkerfi framtíðarinnar því það verði eina hagkerfið sem verður í boði innan tíðar.

„Mikið af þeim lausnum sem munu koma til með að koma okkur inn á rétta braut liggur nú þegar fyrir. Það þarf að magna upp þessar lausnir og í mörgum tilfellum felst þetta ekki síður í viðskiptamódelum og sýn þessara fyrirtækja. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt núna að hugsa ekki aðeins um það hve mikið liggur fyrir heldur hvernig við ætlum að gera þessar breytingar. Við þurfum að fara frá loforðum yfir í efndir og horfa meira á árangur heldur en fyrirætlanir.“

Tækifærin verði ekki lengi til staðar

Á vissan hátt séum við að skapa okkur nýjan heim sem krefjist endurreisnar og nýsköpunar.

„Í raun og veru eru mjög mikil tækifæri í þessari endurreisn og nýsköpun en þau tækifæri eru einungis aðgengileg þeim sem horfast í augu við staðreyndir og hafa dug og þor til þess að grípa tækifærin,“ sagði Halldór.

Tækifærin verði þó ekki lengi til staðar og því sé mikilvægt að fólk sýni frumkvæði í baráttunni og að fyrirtæki hafi skýran tilgang.

„Fyrirtæki sem hafa tilgang og tala opinskátt um sinn tilgang ná miklu meiri metnaði meðal síns starfsfólks. Það er nefnilega enginn einn gerandi sem heldur utan um alla þræði og það er ekki nóg að tala bara um samstarf. Að mínu mati þarf mun þéttari og markvissari samstillingu gerenda, hvort sem það eru ríki, sveitarfélög, atvinnulífið, fjárfestar, starfsfólk eða neytendur. Samþættingin þarf svo að vera í anda neyðarviðbragða og kapphlaups.“

Kvaðst hann trúa því að Íslendingar muni bregðast hratt og örugglega við vandanum enda „tarnafólk“, eins og hann orðaði það.

„Það er eitt af því sem er jákvætt við íslenska nálgun.“

Allt ómöguleg verkefni, þar til þau eru gerð

Loks lagði hann fram þrjár áskoranir fyrir íslensku þjóðina sem hann sagði vera forsendurnar fyrir því að hér geti ríkt hagsæld og að Ísland geti orðið eftirsóknarvert og kolefnishlutlaust í framtíðinni.

Í fyrsta lagi væri það að koma fiski á land og á markað með lágu kolefnisspori enda sé það víða að verða forsenda fyrir því að fá gott verð fyrir fisk. Í öðru lagi væri það að bjóða upp á lágkolefnis ferðaþjónustu og ferðaupplifun. Síðast en ekki síst væri það að endurheimta þau vistkerfi sem hafi hnignað í gegnum okkar búsetu á þessu landi.

„Allt eru þetta stór, erfið og ómöguleg verkefni, þangað til að þau eru gerð,“ sagði hann.

„Við erum öll inni á vellinum og þess vegna er mikilvægt að við horfum til þess hvað það er sem knýr okkur áfram. Fólk hlýtur að hafa trú á framtíðinni og vilja til þess að gera hana eftirsóknarverða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert