Ekkert skítkast í boði á síðunni

Kristín Taiwo Reynisdóttir er ung baráttukona.
Kristín Taiwo Reynisdóttir er ung baráttukona.

Gjarnan er fólk sem verður fyrir rasisma í íslensku samfélagi gagnrýnt fyrir að hafa ekki svarað fyrir sig. Kristín Taiwo Reynisdóttir þekkir þetta vel. Hún hefur búið á Íslandi nánast alla ævi en hún var ættleidd frá Nígeríu tíu mánaða gömul. Í gegnum tíðina hefur hún upplifað rasisma ítrekað á eigin skinni og vinnur nú að því ásamt systur sinni og vinkonum þeirra að fræða fólk um fjölbreytileikann.

Kristín var ein af þeim sem tók þátt í að skapa myndskeið UNICEF í tilefni Dags barnsins sem er í dag.

„Ég man eftir því að þegar ég var í grunnskóla var alltaf haldið upp á þennan dag. Þá horfðum við alltaf á þetta myndband frá UNICEF. Núna er ég bara í myndbandinu. Það er svo óraunverulegt,“ segir Kristín í samtali við mbl.is.

Hún segir að dagurinn hafi mikla þýðingu fyrir barnið innra með henni og það sé frábært að fá að vera fyrirmynd annarra barna af erlendum uppruna. „Það er númer eitt, tvö og þrjú að vera fyrirmynd.“

Kristín, Valgerður og Anna hjá Antirasistunum.
Kristín, Valgerður og Anna hjá Antirasistunum.

Ekkert alltaf auðvelt að standa upp og verja sig

Kristín segir að þó að hún telji að rasismi í íslensku samfélagi hafi minnkað að einhverju leyti á síðustu árum verði hún enn fyrir rasisma. Nýlega lenti hún í slíku atviki í bakaríi með hvítri vinkonu sinni.

„Þegar hvítt fólk verður vitni að rasisma þá fer það í sjokk líka og skilur betur að það er ekkert alltaf auðvelt að standa upp fyrir sjálfri sér,“ segir  Kristín. „Það er alltaf verið að skamma mann fyrir að hafa ekki gert eitthvað. En það er erfitt fyrir fólk að átta sig á því hvernig þetta er, hvernig fólk myndi í raun og veru bregðast við. Það dregur úr upplifun þolandans þegar það er alltaf sagt: „af hverju gerðir þú ekki eitthvað?““

Kristín heldur úti Instagram-síðunni Antirasistarnir með systur sinni Valgerði Kehinde Reynisdóttur sem og vinkonu þeirra Önnu Sonde. Þær hafa hlotið Norræn verðlaun fyrir síðuna og eru með ríflega 5.000 fylgjendur.

„Ég bjóst alveg við því að þetta yrði stórt en ekki svona stórt,“ segir Kristín um síðuna. Antirasistarnir hafa það að markmiði sínu að fræða fólk um rasisma. Aðspurð segir Kristín að almennt sé fólk opið fyrir því að ræða um vandann.

„Það eru alveg einhverjir sem hafa verið með skítkast en þeir fá bara ekkert að gera það á þessari síðu.“

Vilja að fólk með reynslu standi fyrir fræðslu

Stelpurnar kalla eftir því að fræðsla um rasisma verði hluti af námsefni.

„Ég myndi vilja sjá fræðslu sem tengist rasisma og þá að aðilinn sem er að halda fræðsluna sé litaður og hafi upplifað rasisma,“ segir Kristín.

Í grunnskóla lentu þær Valgerður í rasisma og voru þær ánægðar að heyra af því á unglingastigi að fræðsla væri fyrirhuguð. Þær urðu þó fyrir miklum vonbrigðum þegar hvít manneskja, sem ekki hafði reynslu af rasisma, stóð fyrir fræðslunni.

„Maður vissi ekki hvort maður ætti að hlæja eða gráta. Ég vil ekki að neinu barni þurfi að líða eins og mér leið þá.“

Antirasistarnir hafa farið með fræðslu í félagsmiðstöð og eru á leið á málþing með fræðslu í desember. Þær sjá fyrir sér að sinna meiri fræðslu þegar tími gefst. mögulegt er að hafa samband við þær á Instagram @antirasistarnir eða í gegnum tölvupóstfangið antirasistarnir@gmail.com.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert