Aukin togstreita vegna bólusetninga og aðgerða

Mótmælin í Brussel á fimmtudag urðu ofstopafull, en Þorfinnur Ómarsson …
Mótmælin í Brussel á fimmtudag urðu ofstopafull, en Þorfinnur Ómarsson segir að væntanlega hafi það ekki verið ætlunin í upphafi. AFP

Þorfinnur Ómarsson, upplýsingastjóri EFTA, er búsettur í Brussel, höfuðborg Belgíu, þar sem mótmæli gegn samkomutakmörkunum þarlendra yfirvalda fóru úr böndunum um liðna helgi.

Þorfinnur segir að Belgar séu almennt vonsviknir að mótmæli af þessum toga hafi þurft að koma upp. 

Hann segist sjálfur ekki hafa kippt sér mikið upp við það þegar um 35-50 þúsund manns gengu fylktu liði inn á Schumann-stræti í Brussel, til þess að mótmæla friðsamlega steinsnar frá heimili hans. Hann ákvað þó að halda sig fjarri frá mótmælunum þegar þau urðu harkalegri og lögregla skarst í leikinn. 

„Það er mjög rótgróin hefð fyrir því að mótmæla hér í Brussel,“ segir Þorfinnur í samtali við mbl.is. 

Eins og tíðkast hér á landi þarf leyfi borgaryfirvalda til þess að mótmæla, sem gjarnan er veitt nokkuð fúslega, og sú var raunin með umrædd mótmæli í Brussel um helgina. Vanalega er þá um friðsamleg mótmæli að ræða, eins og þau um helgina áttu að vera enda þaulskipulögð. 

„Núna í þessu tilfelli voru greinilega þarna einhverjir sauðir með, fólk sem greinilega ætlaði sér ekkert að mótmæla þarna friðsamlega. Þetta endaði með því að það var reynt að stöðva þessa aðila með stórum vatnsbyssum enda var búið að kveikja í bílum og þess háttar,“ segir Þorfinnur. 

Þorfinnur Ómarsson býr í Brussel.
Þorfinnur Ómarsson býr í Brussel. Ljósmynd/Aðsend

Bólusetningarvottorð falla í grýttan jarðveg

Mótmælin í Brussel – og raunar víðar í Evrópu – hverfast einna helst um andstöðu fólks við bólusetningarvottorð. Þorfinnur útskýrir að í október hafi Belgar tekið upp á því að krefja fólk um bólusetningarvottorð við komu á skemmtistaði, veitingastaði o.þ.h. við misgóðar undirtektir íbúa landsins. 

„Framkvæmdin á þessu hefur nú verið svona upp og ofan svo ég segi sjálfur frá. Ég held að það sé í minna en annað hvert skipti sem ég fer á veitingahús eða kaffihús eða eitthvað sem ég er beðinn um þetta,“ segir Þorfinnur.

Þorfinnur segir einnig að fólk sé eilítið rólegra í dreifðari byggðum Belgíu, þar sem bólusetningarhlutfall er um og yfir 85%, en í Brussel þar sem það er í kringum 60%.

Af hverju er það?

„Brussel er náttúrlega margbrotin borg svona félagslega á litið. Það eru ákveðnir þjófélagshópar og ákveðin hverfi sem eru mjög samstillt og stemmningin á móti bólusetningum í raun bara ríkjandi. Í sumum tilfellum er fólk jafnvel að bera fyrir sig einhverjum trúarlegum ástæðum og fyrirfram gefnum forsendum til þess að vera á móti bólusetningum almennt, hvort sem er gegn þessu eða öðru. “

Gestir veitingastaða í Brussel verða nú að framvísa bólusetningarvottorðum ætli …
Gestir veitingastaða í Brussel verða nú að framvísa bólusetningarvottorðum ætli þeir sér að fá borð. Framkvæmd við það hefur þó kannski ekki gengið eins vel og margir vonuðust til, eins og Þorfinnur útskýrir. AFP

Kergja milli bólusettra og óbólusettra

Þorfinnur segir að vegna lágs bólusetningarhlutfalls í Brussel sé aukin togstreita á milli þeirra sem hafa bólusett sig gegn kórónuveirunni og þeirra sem kjósa að gera það ekki. Þannig vilja einhverjir bólusettir meina að það sé verið að skemma þeirra samfélagslega framlag, sem þeir töldu sig vera að skapa með því að þiggja bólusetningu.

„Það eru mjög margir bólusettir sem eru mjög reiðir og í nöp við þessa andstöðu sko. Þannig má segja að það sé meiri togstreita en var af því sumir eru, eins og ég segi, í prinsippinu á móti bólusetningu á meðan aðrir sem eru löngubólusettir eru orðnir þreyttir á þessu fólki sem vill ekki láta bólusetja sig. Það er búið að pólarísera stemmninguna, af því þeir sem létu bólusetja sig telja sig hafa verið að gera það í góðri trú og héldu að þeir væru að sinna sínu samfélagslega hlutverki til að reyna kveða þennan vágest niður.“

Kjarabarátta lögreglumanna bætir gráu ofan á svart

Til viðbótar við að upp úr sjóði meðal mótmælenda á götum Brussel eru lögreglumenn borgarinnar að berjast fyrir bættum kjörum. Dæmi eru um að lögreglumenn loki stórum umferðaræðum í mótmælaskyni, sem er ekki til þess fallið að sefa áhyggjur þeirra sem vilja mótmæla aðgerðum yfirvalda. 

„Kaldhæðnin er svo svakaleg af því stéttarfélag lögreglumanna er að mótmæla líka nefnilega. Þeir voru að mótmæla í síðustu viku og mótmæla aftur í dag,“ segir Þorfinnur.

„Þeir eru að kvarta yfir því að þeirra kjör hafi ekki batnað í gegnum árin á sama tíma og álagið eykst þannig að það eltir hvert annað í þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert