Skilur vel áhyggjur foreldra

Gunnar Einarsson.
Gunnar Einarsson. mbl.is/RAX

Ekkert athugavert hefur komið upp við eftirgrennslan bæjaryfirvalda í Garðabæ vegna starfa þeirra Beverly Gíslasonar og Einars Gíslasonar í bænum, að sögn Gunnar Einarssonar bæjarstjóra.

Hjónin starfræktu Montessori-leikskóla í Sjálandsskóla og störfuðu einnig sem dagforeldrar. Áður ráku þau barnaheimili á Hjalteyri en fólk sem dvaldi þar segist hafa orðið fyrir illri meðferð og kynferðisofbeldi.

Gunnar segir að mikil vinna hafi farið að í reyna að ná utan um málið síðan það kom upp, hvenær hjónin störfuðu nákvæmlega í bænum og í hvaða húsnæði. Upplýsingar um framgang vinnunnar verða birtar á vefsíðu Garðabæjar.

Gunnar hvetur fólk til að hafa samband við bæjaryfirvöld ef það telur tilefni til og verður málunum komið í réttan farveg. Einnig stendur til að fá hlutlausan, utanaðkomandi aðila til að gera úttekt á málinu.

Garðabær.
Garðabær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er ekki eitthvað sem við tökum létt. Við skiljum alvarleika málsins og munum ekki stinga þessu undir stól. Við erum að reyna að fóta okkur í þessari stöðu sem er uppi,“ segir Gunnar.

„Við viljum gera rétt og við finnum til með þeim sem líður illa yfir málinu. „Auðvitað hefur fólk áhyggjur þegar frásagnir frá Hjalteyri eru með þessum hætti.“

Ekkert athugavert fundist 

Hann segist hafa átt samtöl við foreldra í dag og skilur vel áhyggjur þeirra. Hann tekur þó fram að ekkert athugavert hafi fundist í tengslum við starfsemi hjónanna í bænum en vill þó ekki sverja fyrir „að það leynist ekki eitthvað einhvers staðar“.  Engar ábendingar hafa heldur komið upp í tengslum við málið. Tölvupóstar hafa einnig borist frá fólki sem var með börn í umsjá hjónanna þar sem kemur fram að aldrei hafi neitt komið upp á og að ánægja hafi verið með starfsemina.

Gunnar nefnir þó að hjónin hafi verið sérstök og að fólk hafi haft mismunandi skoðanir á hugmyndafræði þeirra, rétt eins og gengur og gerist.

Sagði frá reynslu sinni á Hjalteyri 

Spurður út í tilkynningu sem barst bæjaryfirvöldum í kringum 2008 vegna starfseminnar á Hjalteyri, eins og Vísir greindi frá, segir Gunnar þann sem hringdi hafa talað við leikskólafulltrúa sem þá starfaði hjá bænum og sagt frá reynslu sinni á Hjalteyri. „Þetta barst mér til eyrna í gegnum starfsmann hér. Það er eina símtalið sem mig rámar í. Þá lagði maður höfuðáherslu á að það yrði fylgst mjög vel með þessu öllu saman, eins og annarri opinberri starfsemi eins og leikskóli er,“ segir hann og bætir við að ekkert hafi skort á eftirlit með leikskólum og dagforeldrum í bænum.

Hjalteyri.
Hjalteyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Störfuðu í Seattle 

Spurður nánar út í starfsemi hjónanna í Garðabæ segir Gunnar að staðfestar upplýsingar séu ekki komnar fram. Samkvæmt því sem hann hefur núna undir höndum störfuðu þau sem dagforeldrar í bænum frá 1998 til 2003.

Eftir það fluttu þau til Seattle í Bandaríkjunum og störfuðu þar á leikskóla frá 2004 til 2005.

Beverly sótti síðan í júlí 2005 um að starfa sem dagforeldri í Garðabæ. Í framhaldinu opnuðu þau Montessori-skólann, leikskóla með fjórum kennurum, í Sjálandsskóla. Þar var leikskólinn rekinn frá 2005 til 2008.

Frá 2008 til 2010 störfuðu þau sem dagforeldrar í Sigurhæð í Garðabæ. Beverly starfaði síðan sem leikskólakennari á Hæðarbóli frá 2011 til 2013. Eftir það sótti hún um leyfi sem dagforeldri yfir fimm börnum árið 2014 og var það samþykkt.

Einar lést árið 2015 og Beverly fjórum árum síðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert