Þetta hefur ráðherra heimild til að kaupa og selja

Verði fjárlögin samþykkt hefur fjármálaráðherra heimild til að kaupa Hótel …
Verði fjárlögin samþykkt hefur fjármálaráðherra heimild til að kaupa Hótel Sögu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármálaráðherra verður heimilt að kaupa Hótel Sögu undir starfsemi Háskóla Íslands og selja húsnæði fjölmargra stofnana samkvæmt fjárlögum sem kynnt voru í morgun. Ekki er nýtt að listi yfir heimildir ráðherra sé langur, enda þarf, samkvæmt stjórnarskrá, að liggja fyrir heimild í lögum fyrir sölu, kaupum og ef veita á afnot af fasteignum ríkisins.

Í fjárlögum ársins 2022 er þetta engin undantekning og fylgir langur listi af eignum sem fjármálaráðherra er heimilt að ráðstafa. Sérstaklega er þó tekið fram að ekki þurfi að nýta heimildina, enda hafa sumar heimildir verið inni í fjárlögum undanfarin ár og jafnvel áratug.

Hótel Saga vegur þyngst í 5 milljarða pakka

Fyrst ber að geta þess að ráðherra er heimilað að kaupa eða leigja húsnæði fyrir starfsemi Háskóla Íslands. Er vísað til að þetta eigi við um möguleg áform um kaup á Hótel Sögu, sem gæti hentað fyrir starfsemi menntavísindasviðs háskólans. Deildin er nú staðsett í Stakkahlíð og Skipholti.

„Forsenda fyrir því að til álita kæmi að ganga til kaupa á Hótel Sögu er að eignin bjóðist á hagstæðum kjörum. Áætlað heildarumfang vegna kaupa á fasteignum er um 5 ma.kr. og munar þar mest um kaup á Hótel Sögu nái það fram að ganga,“ segir í skýringum með fjárlögunum.

Meðal annarra eigna sem nefndar eru sem ráðherra hefur heimild að selja eru Rauðarárstígur 10 og Laugavegur 114-116, en þar voru til húsa skrifstofur Tryggingastofnunar ríkisins og Persónuverndar. Þá er einnig heimild til að selja húsnæði Þjóðskjalasafnsins og kaupa eða leigja nýtt húsnæði finnist hentugt slíkt. Hefur þessi heimild verið til staðar mörg undanfarin ár.

Gamla húsnæði Tryggingastofnunar á gatnamótum Laugarvegs og Snorrabrautar.
Gamla húsnæði Tryggingastofnunar á gatnamótum Laugarvegs og Snorrabrautar. mbl.is/Eggert

Lögreglan og Skatturinn

Jafnframt má ráðherra selja húsnæði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að Hverfisgötu og kaupa eða leigja nýtt húsnæði fyrir lögregluna og ríkislögreglustjóra. Er meðal annars í vinnslu að koma upp nýrri miðstöð viðbragðsaðila.

Þá er heimild að selja Tollhúsið og kaupa eða leigja hentugra húsnæði. Jafnframt hefur ráðherra leyfi til að selja Skógarhlíð 6 þar sem heilbrigðisráðuneytið er til húsa ef hentugt húsnæði finnst í staðinn.

Tollhúsið við Tryggvagötu er á listanum, en þar er nú …
Tollhúsið við Tryggvagötu er á listanum, en þar er nú til húsa sameinað embætti Tollsins og Ríkisskattstjóra undir nafninu Skatturinn. mbl.is/Ófeigur

Heimilt að kaupa húsnæði fyrir fjölda stofnana

Heimild er einnig til að selja Héraðsdóms Reykjavíkur og Landsréttar í Austurstræti 19 og við Vesturvör 2 og kaupa eða leigja hentugra húsnæði.

Ráðherra er jafnframt veitt heimild til að kaupa eða leigja nýtt húsnæði fyrir Þjóðleikhúsið, Íslenska dansflokkinn, Vinnumálastofnun, umboðsmann skuldara og umboðsmann barna, Hugverkastofu, embætti ríkislögmanns, Persónuvernd, Framkvæmdasýsluna – Ríkiseignir, Skipulagsstofnun og Geislavarnir ríkisins.

Þegar kemur að jarðakaupum og –sölu er veitt heimild fyrir sölu á „eyðibýli og húsarústir sem henta vel til endurbyggingar á leigulóð“ án þess að tiltekið sé nákvæmlega um hvaða eyðibýli sé að ræða. Þá má einnig selja hluta af landsvæðum ríkisins við Litla-Hraun. Ráðherra má þá kaupa landsvæði við Dimmuborgir, kaupa sumarbústaði og jarðir í þjóðgarðinum á Þingvöllum og í næsta nágrenni.

Skemma á Raufarhöfn og flugstöðvar 

Ráðherra er einnig veitt heimild til að „selja eða ráðstafa með öðrum hætti skemmu á Raufarhafnarflugvelli“ og selja eða ráðstafa flugstöðinni á Flúðaflugvelli og Þingeyri.

Ef horft er út fyrir landsteinana er veitt heimild til að kaupa sendiherrabústað eða skrifstofur í New York.

Varðandi aðrar eignir ríkisins er veitt heimild til kaupa eða leigu á þremur nýjum björgunarþyrlum fyrir Landhelgisgæsluna og selja eldri þyrlu sem ber nafnið TF-LIF. Jafnframt er heimild til að selja varðskipin Ægi og Tý.

Heimild fyrir ríkisábyrgð á 120 milljón dala lánalínu Icelandair er …
Heimild fyrir ríkisábyrgð á 120 milljón dala lánalínu Icelandair er áfram inn í fjárlögunum. mbl.is/Árni Sæberg

Icelandair-ábyrgðin áfram inni

Að lokum er vert að nefna að heimild til að ríkið veiti Icelandair Group hf. sjálfskuldarábyrgð er enn í fjárlögunum, en heimildin var sett eftir að heimsfaraldur kórónuveiru fór af stað. Er ábyrgðin veitt þar sem Icelandair er talið kerfislega mikilvægt fyrirtæki, en heildarskuldbinding ríkissjóðs getur numið allt að 108 milljónum Bandaríkjadala eða sem jafngildir 90% af 120 milljóna Bandaríkjadala lánalínum til félagsins.

mbl.is