Skapa þurfi ró í kringum skólastarfið

Mikið hefur mætt á starfsmönnum, börnum og foreldrum í Fossvogsskóla …
Mikið hefur mætt á starfsmönnum, börnum og foreldrum í Fossvogsskóla undanfarin misseri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sýna þarf aðgát í nærveru sálar og er tími til kominn að skapa eins mikla ró í kringum skólastarfið í Fossvogi eins og kostur er. Þetta segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, inntur viðbragða við gagnrýni foreldra gagnvart Ingibjörgu Ýr Pálmadóttur, fráfarandi skólastjóra skólans.

Gleymdi að sækja um ferð fyrir börnin á Reyki

Gagnrýndu foreldrarnir Ingibjörgu fyrir að hafa gleymt að senda inn umsókn um ferð sjöunda bekkinga á Reyki í Hrútafirði.

Þegar umsókn loks barst frá skólanum var allt orðið fullt í skólabúðunum. Er þetta því annað árið í röð sem nemendur Fossvogsskóla komast ekki á Reyki en í fyrra var opinber skýring sú að ekki hefði verið hægt að fara vegna Covid-takmarkana, að því er Fréttablaðið greindi frá í gær.

Haft var eftir ónafngreindum föður barns við skólann að börnin væru verulega svekkt yfir því að komast ekki á Reyki.

„Þeim finnst skólinn og skólastjórnendur hafa brugðist sér,“ segir hann. Að sögn föðurins upplifa börnin það sem svo að þau séu skilin út undan og að skólinn „hati“ þau.

Ragnar Þór Pétursson, fráfarandi formaður Kennarasambands Íslands.
Ragnar Þór Pétursson, fráfarandi formaður Kennarasambands Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Segir fullorðna fólkið eiga að vita betur en þetta

Ragnar Þór Pétursson, fráfarandi formaður Kennarasambands Íslands, tók svo upp hanskann fyrir Ingibjörgu í pistli á Vísi í gær sem ber yfirskriftina „Kæru foreldrar Fossvogi“.

Við þurfum að ræða um viðbrögð sumra ykkar við því að skólastjórinn ykkar skuli bogna undan því álagi sem fylgir því að reka skólann í langvarandi veiru- og myglufaraldri,“ segir hann í pistlinum.

Þótt það sé auðvitað miður að börnin missi af ferð í skólabúðirnar breyti það því ekki að foreldrarnir, verandi fullorðið fólk og mikilvægir hlekkir í skólasamfélaginu, eigi að „vita betur“, að sögn Ragnars.

„Kæru foreldrar í Fossvogi. Skólafólkið ykkar hefur unnið þrekvirki við að halda gangandi skóla barnanna ykkar við ofboðslega krefjandi aðstæður í alllangan tíma. Það þarf á stuðningi ykkar að halda. Umfram allt þurfa börnin ykkar að sjá ykkur ástunda víðsýni, samkennd og virðingu fyrir samferðafólki ykkar – því óháð veirum og myglugróum lærast sumar lexíur ekki annars staðar en heima.“

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Ljósmynd/Aðsend

„Stundum má satt bara kyrrt liggja“

Helgi tekur undir með Ragnari og segir skólann og starfsfólk hans hafa þurft að þola mjög krefjandi aðstæður undanfarin misseri. Því þyki honum dapurlegt að fréttaflutningur um málefni skólans sé með þeim hætti sem hann hefur verið.

„Hvernig ætli þessum starfsmanni, sem er að hætta störfum, líði að sjá svona frétt? Mér finnst þetta bara ómaklegt því hún reyndi snannarlega að vinda ofan af þessum mistökum sem hún gerði við þessar aðstæður í haust,“ segir Helgi og vísar þar í Ingibjörgu, fráfarandi skólastjóra Fossvogsskóla.

Eftir allt sem á undan hafi gengið þurfi að sýna aðgát í nærveru sálar og skapa eins mikla ró í kringum skólastarfið í Fossvogsskóla eins og kostur er, að sögn Helga.

„Í stað þess að ala á ágreiningi þurfum við að taka saman höndum, vernda skólastarfið í Fossvogi og leyfa fólki að vinna sín flóknu störf í eins miklum friði og hægt er. Skapa ró og festu. Stundum má satt bara kyrrt liggja því til lengri tíma litið skiptir það ekki máli. Umræða af þessu tagi skapar ekki þá umgjörð sem skólastarfið þarf sannarlega á þessum tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert