Hættir vegna álags: „Það var bara komið nóg“

Framkvæmdir standa enn yfir við Fossvogsskóla, rúmum tveimur árum eftir …
Framkvæmdir standa enn yfir við Fossvogsskóla, rúmum tveimur árum eftir að þær hófust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ingibjörg Ýr Pálmadóttir, skólastjóri Fossvogsskóla, lætur af störfum í dag eftir 25 mánuði í starfi. Ástæðan er fyrst og fremst gríðarlegt álag sem fylgt hefur óvissu með húsnæðismál Fossvogsskóla eftir að raki og mygla kom þar upp fyrir rúmum tveimur árum, og öllu raskinu á skólastarfinu vegna framkvæmda við húsnæðið, sem ekki sér fyrir endann á.

„Hefði þurft miklu miklu meiri stuðning“

Ákvörðunina tók Ingibjörg með hagsmuni sína og fjölskyldu sinnar að leiðarljósi.

„Ástæðan er fyrst og síðast þetta gríðarlega álag sem hefur verið í starfi, að það er engu líkt. Það hefði þurft miklu miklu meiri stuðning inn í skólastarfið til að þessi formúla ætti að ganga upp,“ segir Ingibjörg í samtali við mbl.is

Takmörk fyrir því hvað maður leggur á sig

„Fyrst og síðast er þetta mín ákvörðun. Það eru takmörk fyrir því hvað maður leggur mikið á sig og það var bara komið nóg,“ bætir hún við.

Til viðbótar við starf skólastjóra hefur Ingibjörg þurft að taka að sér ýmis önnur verkefni til að láta skólastarfið ganga upp. Verkefni sem hún hefði í raun ekki átt að hafa á sínum herðum.

„Það hefur verið gríðarlegt álag að taka heilt starf ofan á starf skólastjórnanda og það eru takmörk fyrir því hvað maður getur gert það lengi. Þessi húsnæðismál hafa verð rosalega tímafrek og tekið mikla orku og það var bara komið nóg. Það er gott að einhver annar taki við,“ segir Ingibjörg.

Áfall í hvert skipti sem eitthvað nýtt kom upp

Á vorönn 2019 var greint frá því að mygluskemmdir hefðu komið í ljós á húsnæði Fossvogsskóla og ráðist var í viðamiklar lagfæringar á öllum álmum skólans. Meðan á þeirri vinnu stóð fengu á fjórða hundrað nemendur inni í höfuðstöðvum KSÍ og í Þrótt­ara­heim­il­inu í Laug­ar­dal, en boðið var upp á rútuferðir til og frá skólanum.

Engin kennsla fer fram í Fossvogsskóla á þessu skólári.
Engin kennsla fer fram í Fossvogsskóla á þessu skólári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar Ingibjörg tók við keflinu í Fossvogsskóla á haustönn 2019 stóð til að framkvæmdum lyki í nóvember það sama ár. Það fór hins vegar ekki svo. Upp kom leki og framkvæmdir töfðust og fljótlega varð ljóst að ekki hafði tekist að uppræta raka og myglu innan veggja skólans. Nemendum var á meðan fundin aðstaða í Korpuskóla í Grafarvogi og aftur sendir með rútum á milli staða. Þá kom einnig upp mygla í Korpuskóla en farið var strax í lagfæringar á húsnæðinu og það talið hæft til kennslu. Vorið 2021 voru framkvæmdir við Fossvogsskóla hins vegar aftur á byrjunarreit.

„Þegar ég tek við þá á þetta að vera búið en kom aftur af fullum krafti um mánuði eftir að ég tók við,“ segir Ingibjörg, en síðan þá hefur ýmislegt gengið á. „Það hafa fylgt því áföll í hvert skipti sem eitthvað nýtt hefur komið upp, ekki bara fyrir mig heldur skólasamfélagið allt.“

Þakklát og mun sakna skólastarfsins

Áður en Ingibjörg varð skólastjóri Fossvogsskóla kenndi hún við skólann í tæp sex ár. Hún hefur því myndað sterk tengsl við skólasamfélagið og mun allra þeirra sem hún hefur kynnst á þessum tíma.

Færanlegum kennsluskúrum var í haust komið fyrir á skólalóð Fossvogsskóla.
Færanlegum kennsluskúrum var í haust komið fyrir á skólalóð Fossvogsskóla. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

„Auðvitað á ég eftir að sakna skólastarfsins, samstarfsfólks, foreldra og nemenda, en maður verður einhvern tíma að setja sjálfan sig framar öðru og það var komið að því núna. Ég er rosalega þakklát fyrir að hafa fengið að starfa þarna. Ég hef starfað við skólann í átta ár og þetta hafa verð góð ár. En þetta verkefni er bara af annarri stærðargráðu.“

Framkvæmdir við Fossvogsskóla vegna rakaskemmda og myglu við hafa nú staðið yfir með hléum í rúm tvö ár. Engin kennsla fer fram í skólahúsnæðinu á þessu skólaári en í haust settust nemendur á skólabekk í húsnæði Hjálpræðishersins á meðan komið var upp færanlegum skólastofum á skólalóð skólans. Óvissa um framtíð skólans hefur ekki hjálpað til við að halda í kennara við skólann, en í haust höfðu fjórir kennarar hætt störfum á nokkrum mánuðum. Það hefur aukið álagið enn frekar, en Ingibjörg þurfti einnig að hlaupa til og sinna kennslu.

Í byrjun nóvember samþykkti borgarráð að veita um­hverf­is- og skipu­lags­sviði borg­ar­inn­ar heim­ild til útboðs á lag­fær­ing­um og end­ur­bót­um á Foss­vogs­skóla. Frum­kostnaðaráætl­un sem unn­in var af verk­fræðistof­unni Eflu hljóðar upp á rúm­lega 1,6 millj­arða króna. Áætlað er að allt skólastarf færist aftur inn í Fossvogsskóla á haustönn 2022 og að framkvæmdum ljúki að fullu haustið 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert