Hollendingar frömdu Tyrkjaránin

Tyrkjaránin áttu sér stað árið 1627. Þau voru aðskilin, annað …
Tyrkjaránin áttu sér stað árið 1627. Þau voru aðskilin, annað í júní í Grindavík og hitt á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum í júlí. Í Vestmannaeyjum var rúmlega helmingur íbúa hertekinn. mbl.is/Árni Sæberg

Þýðingar á Reisubók séra Ólafs Egilssonar hafa gjörbreytt þeirri mynd sem fólk hefur af Tyrkjaránunum sumarið 1627. Þau voru aðskilin, annað í júní í Grindavík og hitt á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum í júlí. Ekki er alls kostar rétt að tengja Tyrki við ránin því sjóræningjarnir komu frá Alsír og borginni Sale í Marokkó og voru af ýmsu þjóðerni. Ránin tengdust ófriði í Evrópu, 80 ára stríðinu milli Beneluxlandanna, Hollands, Belgíu og Luxemborgar, og Spánar. Meðan þau geisuðu voru sjóræningjarnir með uppáskrifað leyfi til að ráðast á öll skip önnur en hollensk og herjuðu víða á lönd.

Í bráðabirgðavopnahléi í stríðinu þrengdist um starfsemina sem leiddi þá m.a. til Íslands þar sem þeir rændu um 400 manns og drápu tugi. Athyglisverður er hlutur Hollendinganna sem stýrðu herförinni. Tveir harðsvíraðir sjóræningjaforingjar lögðust á sveif með múslimum í að ræna hvítum kristnum Evrópubúum og hneppa þá í þrældóm.

Hópur ribbalda

Þetta er meðal þess sem fram kom á fjölþjóðlegri ráðstefnu um Tyrkjaránin sem haldin var í Vestmannaeyjum á dögunum á vegum Söguseturs 1627. Fyrirlesarar voru frá Íslandi, Svíþjóð, Hollandi og Bandaríkjunum. Kynntar voru nýjar fræðilegar útgáfur og skáldsögur byggðar á Tyrkjaráninu. Sögusetur 1627 hefur starfað frá árinu 2006 og beitir sér fyrir fræðslu um sögu Vestmannaeyja, rannsóknum, ráðstefnum og viðburðum og útgáfu efnis sem tengist sögu Vestmannaeyja, með áherslu á Tyrkjaránið 1627.

Fjölþjóðleg ráðstefna um Tyrkjaránið fór fram í Vestmannaeyjum fyrr á …
Fjölþjóðleg ráðstefna um Tyrkjaránið fór fram í Vestmannaeyjum fyrr á árinu. Á myndinni eru þeir Kári Bjarnason, Karl Smári Hreinsson og Adam Nichol. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Gestirnir eru allir vel þekktir fræðimenn og rithöfundar. Karl Smári Hreinsson, rithöfundur og þýðandi, Mats Royter, rithöfundur frá Svíþjóð, Joris van Os, þýðandi og kvikmyndagerðarmaður frá Hollandi, og hinn bandaríski prófessor Adam Nichols.

Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss Vestmannaeyja, stýrði ráðstefnunni og gat þess í ávarpi sínu að Reisubók séra Ólafs Egilssonar væri eitt mesta bókmenntaafrek Íslandssögunnar. Reisubókin er samtímasaga og frásögn manns sem var rænt ásamt fjölskyldu sinni. Í bókinni lýsir Ólafur ráninu og því hvernig hann missti allt sitt. Hann segir frá þrælahaldinu og leið sinni um Evrópu til Kaupmannahafnar og Íslands. „Meira en helmingur íbúa Vestmannaeyja var hertekinn, eða 242 af um 400 til 450 íbúum. Menn, konur og börn voru seld í þrældóm og á fjórða tug íbúa drepnir. Er það ein af ráðgátum Tyrkjaránsins, hvernig hægt var að mynda samfélag í Vestmannaeyjum að nýju eftir þetta mikla áfall,“ sagði Kári.

Adam Nichols, bandarískur prófessor, var meðal fyrirlesara á ráðstefnunni.
Adam Nichols, bandarískur prófessor, var meðal fyrirlesara á ráðstefnunni. mbl.is/Óskar Pétur

Reisubókin einstök heimild

Kári sagði bókina skyldulesningu og mættu Vestmannaeyingar vera stoltir af. „Þegar rætt er um Reisubókina er aldrei ofmælt. Hún er einstök heimild um þá hörmulegu atburði sem sjórán og þrælasala var á sautjándu öld,“ sagði Kári sem ásamt Má Jónssyni sagnfræðingi sá á síðasta ári um myndarlega útgáfu á Reisubókinni og fleiri textum tengdum Tyrkjaráninu.

Karl Smári er sannfærður um að séra Ólafur hafi skrifað bókina að beiðni Odds Einarssonar, biskups í Skálholti. Til eru um 30 handrit af Reisubókinni og var hún þýdd á dönsku árið 1741 þegar guðsorðabækur voru allsráðandi. „Reisubókin var óþekkt erlendum fræðimönnum þar til við Adam þýddum hana á ensku árið 2008,“ sagði Karl Smári sem ásamt Adam Nichols hefur skrifað tvær fræðibækur á ensku, byggðar á Tyrkjaránunum. Sú nýjasta er Stolen Lives sem fjallar um árásina á Heimaey. Fleiri hafa fetað sama veg og nefndi hann fjölda rithöfunda sem skrifað hafa bækur byggðar á Reisubókinni.

„Ég efast um að nokkur íslensk bók, nema kannski Njála, hafi kveikt áhuga fleiri fræðimanna um allan heim og orðið kveikjan að jafn mörgum greinum og sögum.“

Klettarnir í sögunni

Mats Royter fékk Reisubókina í hendur árið 2014 og nýjasta bók hans fjallar um örlög fjölskyldu í Vestmannaeyjum sem Tyrkir rændu og seldu í þrælahald 1627. „Ég kom til Vestmannaeyja í september 2014 til að sjá hvar ræningjarnir komu á land, skoða landslagið og klettana sem skipta svo miklu í sögunni,“ sagði Mats en bók hans heitir Turkräden. 

Joris van Os, rithöfundur, þýðandi og kvikmyndagerðarmaður, sem þýddi Reisubókina á hollensku, fjallaði um þátt landa sinna í Tyrkjaráninu. Sagði hann miskunnarleysi þeirra og grimmd hafa komið bæði sjálfum sér og Hollendingum á óvart. „Þeir voru með leyfi frá hollenskum stjórnvöldum til að ræna, nauðga og drepa að vild svo lengi sem það var óvinurinn. Saga fólksins í Vestmannaeyjum sem mátti þola dauða, grimmd og eyðileggingu snart fólk,“ sagði Joris van Os. „Það kom okkur í opna skjöldu að foringjar þeirra voru hollenskir. Þið getið því kennt okkur um Tyrkjaránið 1627 og vil ég biðja Íslendinga opinberlegrar afsökunar,“ sagði Joris við góðar undirtektir gesta.

Joris van Os, rithöfundur, þýðandi og kvikmyndagerðarmaður frá Hollandi sagði …
Joris van Os, rithöfundur, þýðandi og kvikmyndagerðarmaður frá Hollandi sagði að hægt væri að kenna Hollendingum um Tyrkjaránin. mbl.is/Óskar Pétur

Miskunnarlausir menn

Adam Nichols, sem er flestum fróðari um sögu sjórána, fjallaði sérstaklega um foringja sjóræningjanna og forsendur fyrir Tyrkjaráninu. Mórat Reis kom frá Sale og fór fyrir ræningjunum sem réðust á Grindavík en Mórat Flamengo stýrði ræningjunum sem réðust á Austfirði og Vestmannaeyjar.

„Fyrri árásin var í lok júní þegar skip réðst á Grindavík, gerði misheppnaða árás á Bessastaði og rændi ensk fiskiskip á Vestfjörðum. Hélt héðan með 50 til 60 fanga, Íslendinga, Dani og Englendinga.

Sú seinni var í júlí og byrjaði með því að tvö og seinna þrjú skip réðust á Austfirði, Djúpavog og firði þar í kring. Til Vestmannaeyja komu þeir 16. júlí og lýsingar af grimmd þeirra eru hreint ótrúlegar. Hertóku um 250 manns og seldu í þrældóm.“

Mikið er vitað um Mórat Reis og Mórat Flamengo. Báðir efnuðust vel og komust til mikilla áhrifa.

„Þetta voru framtakssamir menn en líka miskunnarlausir en fyrst og síðast viðskiptamenn sem nýttu tækifærin sem sjórán og þrælasala bauð upp á,“ sagði Adam um þessi varmenni sem hann þekkir vel eftir rannsóknir sínar og heimildaleit um langa hríð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert