Gæti gosið í júní á næsta ári

Flogið var yfir svæðið í gær.
Flogið var yfir svæðið í gær. Atlantsflug/Jón Grétar Sigurðsson

Ekki er hægt að útiloka eldgos í Grímsvötnum þó enginn gosórói hafi enn mælst á svæðinu og hlaup þar virðist líklega hafa náð hámarki.

Þetta segir Bjarki Friis, nátt­úru­vá­sér­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Hann segir ómögulegt að meta líkur á eldgosi og sagði að fara yrði í frekari rennslismælingar en rennslið í Gígjukvísl mæld­ist í morg­un 2.800 rúm­metr­ar en það er um 28 sinn­um meira en rennsli ár­inn­ar miðað við venju­legt ár­ferði.

Það verður líklega ekki fyrr en í fyrramálið en vonskuveður er á suðausturhluta landsins.

Íshellan hefur sigið um alls um 75m klukkan 14 í dag og hægt hefur verulega á siginu. Mælingar sýna einnig að talsvert hefur dregið úr hlaupóróa undir jökli frá því að óróinn náði hámarki í nótt. Hvoru tveggja eru vísbendingar um að Grímsvötn hafi tæmt sig af hlaupvatni að mestu.

Grímsvötn tilbúin í gos

Að öllu jöfnu tekur það hlaupvatn um 6-10 klukkustundir að berast úr vötnunum niður að jökulsporði Skeiðarárjökuls og út í Gígjukvísl. Því má vera að hlaupið í farvegi Gígjukvíslar hafi þegar náð hámarki. 

„Við verðum bara að bíða og sjá hvort eitthvað annað gerist. Fargið sem talað var um er farið en hvort það leiði til goss vitum við ekki. Það er í það minnsta engin skjálftavirkni,“ segir Bjarki.

Hann bendir á að þó líklegra sé talið að ef komi til goss verði það strax í kjölfar hlaups geti liðið lengri tími:

„Árið 2010 leið hálft ár áður en það fór að gjósa en 2004 gaus þegar hlaupið var nálægt hámarki.“

Hann segir að sérfræðingar muni áfram fylgjast vel með stöðunni í Grímsvötnum og svæðið verði í gjörgæslu eitthvað áfram.

„Grímsvötn eru tilbúin í gos en það er spurning hvort þau nenni því. Eins og er eru engin gögn sem styðja að þau fari að gjósa núna en það gæti breyst mjög hratt.“

mbl.is