„Þetta er væntanlega einhver stráksskapur“

Fleiri sprengingar hafa heyrst í Salahverfinu.
Fleiri sprengingar hafa heyrst í Salahverfinu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Svo virðist sem einhverjir hafi fundið gamlar birgðir af áramótasprengjum frá því í fyrra og séu að leika sér að sprengja þær í Salahverfinu í Kópavogi. Þetta segir Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni í Kópavogi. 

Í gærkvöldi kom einhvers konar sprengja yfir girðingu og inn í sundlaugagarð Salalaugar þar sem hún lenti í vatni og sprakk. Engin slys urðu á fólki en gestum sundlaugarinnar og starfsfólki var mjög brugðið.

„Það er einhver sem hendir kínverja eða einhverju yfir girðinguna og ofan í laugina þar sem þetta springur.“ Gunnar segir að fleiri sprengingar hafi átt sér stað í hverfinu í gær og að öllum líkindum sé um að ræða börn eða unglinga að leika sér með gamlar áramótasprengjur.

„Það virðist einhver hafa fundið gamlar birgðir einhvers staðar. Einhverjar leifar frá því í fyrra. Þetta er væntanlega einhver stráksskapur, krakkar að fíflast,“ segir Gunnar.

Þessi leikur geti hins vegar stórhættulegur, sérstaklega þegar kínverjum eða öðru er kastað þangað sem fólk er. „Það verður að fara varlega með svona.“

Hann segir málið í skoðun hjá rannsóknardeildinni og búið er að fara yfir eitthvað myndefni úr öryggismyndavélum. „Það eru myndavélar þarna á svæðinu og það er spurning hvort við sjáum eitthvað þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert