Stærsti vinningur í sögu HHÍ til sýnis

Þetta er slatti af seðlum.
Þetta er slatti af seðlum. Ljósmynd/HHÍ

Í tilefni þess að stærsti einstaki vinningur í sögu Happdrættis Háskóla Íslands verður dreginn út á föstudaginn kemur verður vinningsupphæðin, 110 milljónir króna, til sýnis í Kringlunni í dag og á morgun, miðvikudag og fimmtudag.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Milljónirnar verða til sýnis í sérsmíðuðum kassa fyrir framan verslun Augans á 2. hæðinni í Kringlunni og verður gætt af öryggisvörðum frá Securitas.

Ljósmynd/HHÍ

„Potturinn er sá langstærsti í tæplega 90 ára sögu happdrættisins og í tilefni þess vildum við leyfa þjóðinni að berja stóra vinninginn augum,“ er haft eftir Úlfari Gauta Haraldssyni, sölu- og markaðsstjóra HHÍ.

Potturinn í Milljónaveltunni er ellefufaldur, eða 110 milljónir króna, og verður sem fyrr segir dreginn út á föstudaginn kemur, 10. desember. Samkvæmt reglum happdrættisins verður að greiða Milljónaveltuna út í síðasta útdrætti ársins og því ljóst að einn heppinn miðaeigandi er öruggur með að hreppa stóra vinninginn.

mbl.is