Fimm þingmenn smitaðir og fleiri á leið í sóttkví

„Þingið verður áfram starfhæft,“ segir Birgir. Fyrir aftan hann á …
„Þingið verður áfram starfhæft,“ segir Birgir. Fyrir aftan hann á myndinni má sjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, en hún greindist smituð í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgir Ármannsson forseti Alþingis segir að reynt verði að haga málum þannig að þau kórónuveirusmit sem greinst hafa hjá þingmönnum undanfarna tvo daga muni hafa sem minnst áhrif á störf þingsins.

„Þingið verður áfram starfhæft. Við hljótum að reyna að haga okkar skipulagi þannig að við náum að klára þessi verkefni á tilsettum tíma en reyna um leið að taka tillit til þessara aðstæðna,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.

Að minnsta kosti fimm þingmenn og tveir starfsmenn Alþingis hafa greinst með veiruna í dag og í gær.

Enn er þó óljóst hversu margir þingmenn þurfa að fara í sóttkví.

Nefndarfundir verði fjarfundir

Hann segir að ákveðið hafi verið að allir nefndarfundir verði fjarfundir en margt þurfi enn að afgreiða sem krefst mætingar á þingið.

„Það eru auðvitað ákveðnir hlutir sem þarf að afgreiða á þingfundum fyrir jól og áramót.“ Þar beri helst að nefna fjárlögin og mál þeim tengd.

„Þeir sem smitast eða eru settir í sóttkví geta kallað inn varamenn og við þurfum bara að átta okkur á því eftir helgi hvað þeir eru margir.“

Slík er raunin hjá þingflokki Viðreisnar, sem mun á mánudag vera skipaður varamönnum til fulls, en allir þingmenn flokksins eru annað hvort smitaðir eða í sóttkví.

Hvort eitthvað þessu líkt hafi gerst áður í lýðveldissögunni, að heill þingflokkur varaþingmanna taki sæti, segir Birgir: „Ekki mér vitanlega nei. Þetta eru óvenjulegar aðstæður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert