Nýtt greiðslukerfi Strætó veldur gremju

Nokkuð hefur borið á óánægju meðal öryrkja með nýtt greiðslukerfi …
Nokkuð hefur borið á óánægju meðal öryrkja með nýtt greiðslukerfi Strætó. mbl.is/Sigurður Bogi

Nokkuð hefur borið á óánægju meðal öryrkja með hið nýja, rafræna greiðslukerfið sem innleitt var hjá Strætó fyrir um mánuði síðan. Með tilkomu kerfisins, sem kallast Klapp, hefur sumum öryrkjum reynst erfiðara að fá þann afslátt á strætó fargjöldum sem þeir eiga rétt á. 

Kerfið komi niður á þeim sem noti strætó mest

Þessi afsláttur sem öryrkjar eiga rétt á af fargjöldum hjá Strætó virkar allt í einu ekki fyrir alla því nú er þetta allt orðið rafrænt,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, innt viðbragða.

Samkvæmt upplýsingum af klappid.is eiga öryrkjar rétt á 70% afslætti af almennum strætó fargjöldum. Til þess að fá afsláttinn þurfi þeir þó veita Tryggingastofnun leyfi til þess að gefa Strætó upplýsingar um stöðu þeirra hjá stofnuninni.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Spurð segir Þuríður tilganginn með þessu líklegast vera að draga úr líkunum á því að þeir sem ekki eru öryrkjar séu að misnota kerfið til að fá afslátt af fargjöldum sem þeir eiga ekki rétt á.

„En í staðinn hefur þetta útilokað öryrkja og fatlaða frá því að geta nýtt sér þennan samgöngumáta. Þetta fólk notar strætó mjög mikið og þessi breyting kemur mest niður á þeim, sem er algerlega galið.“

Hún segist þó halda og vona að verið sé að reyna bæta úr þessu.

„Menn verða að finna leiðir og lausnir til að gera þeim öryrkjum, sem ekki eru með rafræn skilríki, kleift að komast í strætó á þeim afsláttarkjörum sem þeir eiga rétt á. Ég vona allavega að þessi skilyrði verði dregin baka þar til það finnst betri lausn.“

Óskandi að hægt væri að fækka skrefum í ferlinu

Inntur viðbragða segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, það óskandi að hægt væri að fækka skrefum í ferlinu.

„En það eru bæði lög um persónuvernd sem hamla okkur í því að gera þetta ferli straumlínulagaðra og svo er líka staðreyndin því miður sú að fólk var mikið að misnota gömlu öryrkja farmiðana sem við vorum með í sölu. Það var mjög algengt að fólk sem átti ekki rétt á þeim væri að nota þá.“

Strætó sé þó síður en svo að snuða þá sem sannarlega eiga rétt á afslætti með innleiðingu nýja greiðslukerfisins, að sögn Guðmundar.

„Þetta er bara nýtt ferli og ef fólk á í erfiðleikum með það þá hvet ég það eindregið til þess að leita til Strætó. Það getur bæði leitað til okkar í móttökunni okkar uppi í Hesthálsi 14 eða þá hringt í hjálparsíma Klappsins 540-2710 og við hjálpum því eftir bestu getu.

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó.
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó. Ljósmynd/Dóra Dúna

Þá segist hann vilja leiðrétta þann misskilning sem virðist gæta um að allir öryrkjar þurfi að eiga snjallsíma og nota nýja Klapp-appið til þess að geta nýtt sér afslátt af strætó fargjöldum. Fleiri greiðslumöguleikar séu í boði.

„Fólk getur keypt plastkort hjá okkur á þúsund krónur sem fargjöld eru svo sett inn á. Svo munum við halda áfram að taka við gömlum farmiðum til 1. mars á næsta ári en fólk getur líka skilað miðunum inn og fengið inneign fyrir andvirði miðanna. Svo tökum við líka ennþá við peningum í strætó og hefur engin ákvörðun verið tekin um það hvort breyta eigi því eitthvað á næstunni.“

Bendir hann þó á að þeir öryrkjar sem hyggjast greiða strætó fargjald með peningum og fá afsláttinn sem þeir eiga rétt á þurfi samt að geta sýnt fram á einhverskonar staðfestingu á stöðu þeirra hjá Tryggingastofnun.

Snertilausar kortagreiðslur handan við hornið

Spurður segir hann Klapp-greiðslukerfið hafa reynst ágætlega fram að þessu en að eðlilegt sé að upp komi byrjunarörðugleikar þegar ný greiðslukerfi eru innleidd.

„Við erum auðvitað að hoppa yfir nokkrar kynslóðir í greiðslukerfum. Við vorum rosalega aftarlega í Evrópskum samanburði en erum komin nokkuð framarlega núna. Þetta er bara mánaðargamalt kerfi og við höfum helst verið að lenda í hugbúnaðarvandamálum en við höfum brugðist hratt og örugglega við þeim þegar þau hafa komið upp.“

Hvers vegna ekki að innleiða hefðbundið posakerfi?

„Ástæðan fyrir því að venjuleg posakerfi eru sjaldan notuð í almenningssamgöngum úti í heimi er í raun bara til að spara tíma. Í flestum tilvikum eru notaðir skannar til að flýta fyrir greiðslunni eins og maður sér í Lundúnum og víðar. Það er bara miklu fljótlegra. Við sjáum þó fram á það að fólk geti farið að borga snertilaust í strætó með kortum, Apple Pay og Samsung Pay á næsta ári. Þá verður þetta orðið ennþá aðgengilegra. Þetta er allt að koma.“

Frekari upplýsingar um Klapp-greiðslukerfið má finna á klappid.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert