„Ekki skemmtileg jólagjöf“

Ingibjörg H. Sverrisdóttir, til hægri, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Ingibjörg H. Sverrisdóttir, til hægri, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var ekki gleðileg niðurstaða. Þetta er ekki skemmtileg jólagjöf,“ sagði Ingibjörg H. Sverrisdóttir sem er ein af þremur félögum í Gráa hernum sem töpuðu dómsmáli í morgun gegn íslenska ríkinu og Tryggingastofnun.

Málið snýst í grunninn um hvort skerðingar í almannatryggingakerfinu standist stjórnarskrána, meðal annars eignarréttarákvæðið. Ríkið og Tryggingastofnun voru sýknuð en fyrir liggur að Grái herinn áfrýi málinu til Landsréttar.

Ingibjörg við hlið Helga Péturssonar, formanns Landssambands eldri borgara, í …
Ingibjörg við hlið Helga Péturssonar, formanns Landssambands eldri borgara, í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ingibjörg, sem er formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB), segir vinnuna vegna málsins hafa byrjað haustið 2018 en fram að því hafi það verið lengi í umræðunni.

„Við erum búin að vinna með lögmönnunum í langan tíma. Það hefði verið skemmtilegt að sjá aðra niðurstöðu en við lifum það af. Við höldum áfram og skoðum rökstuðninginn betur á bak við niðurstöðuna,“ sagði Ingibjörg í Héraðsdómi Reykjavíkur eftir að dómurinn var kveðinn upp.

Hluti Gráa hersins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Hluti Gráa hersins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurð hvort niðurstaðan hafi komið henni á óvart svaraði hún því bæði játandi og neitandi. „Ég bjóst við því að það væri kannski eitthvað aðeins meira en algjör höfnun en við eigum eftir að skoða rökstuðninginn,“ sagði hún.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert