Tugir- eða hundruð milljarða í húfi

Flóki ásamt Helga Péturssyni, formanni Landssambands eldri borgara, í Héraðsdómi …
Flóki ásamt Helga Péturssyni, formanni Landssambands eldri borgara, í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun áður en dómurinn var kveðinn upp. mbl.is/Kristinn Magnússon

Búast mátti við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í morgun í máli þriggja félaga úr Gráa hernum gegn íslenska ríkinu og Tryggingastofnun, enda eru slíkir dómar mjög algengir í málum þar sem reynir á álitaefni sem eru ný af nálinni.

Þetta sagði Flóki Ásgeirsson, lögmaður félaganna þriggja, eftir dómsuppkvaðninguna og bætti við að málinu yrði áfrýjað til Landsréttar.

Íslenska ríkið og Tryggingastofnuð voru sýknuð en málið snýst í grunninn um hvort skerðingar í almannatryggingakerfinu standist stjórnarskrána, meðal annars eignaréttarákvæðið.

Flóki sagði dóminn ekki hafa komið á óvart. „Þetta er mál sem er fordæmisgefandi og það fyrsta sinnar tegundar þar sem er látið reyna á eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar nákvæmlega með þessum hætti. Í sjálfu sér mátti búast við að niðurstaðan fyrir héraðsdómi yrði þessi,“ sagði hann í héraðsdómi í samtali við blaðamann mbl.is.

Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður, til vinstri, ásamt Flóka Ásgeirssyni.
Einar Karl Hallvarðsson ríkislögmaður, til vinstri, ásamt Flóka Ásgeirssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður nánar út í umfang málsins sagði hann að verði skerðing bótanna sem málið snýst um talin ólögmæt fyrir Landsrétti eða Hæstarétti gæti ríkið þurft að endurgreiða „gríðarlegar fjárhæðir“, sem hlaupi á „tugum- ef ekki hundruð milljarða [króna]“.

Málið snertir langstærstan hluta allra ellilífeyrisþega landsins sem eiga réttindi, bæði í lífeyrissjóðum og innan almannatryggingakerfisins, að sögn Flóka.

„Málið lýtur að samspili þessara tveggja kerfa og það er mikill meirihluti ellilífeyrisþega sem verður fyrir þessum skerðingum sem hérna er tekist á um.“

Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Inntur eftir því hversu langt aftur í tímann endurgreiðslur myndu ná ef skerðingin yrði talin ólögmæt á seinni dómstigum sagði hann að í umræddu máli sé tekist á um kerfið eins og það hefur verið frá ársbyrjun 2017. „Ef niðurstaðan verður önnur í Landsrétti gæti það að minnsta kosti náð aftur að því tímamarki og jafnvel lengur,“ greindi hann frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert