Munum örugglega áfrýja til Evrópu

Helgi Pétursson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Helgi Pétursson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, segir það vonbrigði að íslenska ríkið og Tryggingastofnun hafi verið sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hann telur að málið gæti farið alla leið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

Þrír félagar úr Gráa hernum, baráttuhópi eldra fólks um lífeyrismál, höfðuðu málið. Í grunn­inn snýst það um hvort skerðing­ar í al­manna­trygg­inga­kerf­inu stand­ist stjórn­ar­skrána, meðal ann­ars eigna­rétt­ar­á­kvæðið. Eru mál­in þrjú mis­mun­andi, en Grái her­inn tel­ur að þau muni gefa heild­stæða mynd af göll­um al­manna­trygg­inga­kerf­is­ins.

Kjartan Bjarni Björgvinsson kvað upp dóminn í Héraðsdómi Reykjavíkur í …
Kjartan Bjarni Björgvinsson kvað upp dóminn í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi sagði eftir dómsuppkvaðninguna nauðsynlegt að fá úr málinu skorið, enda búið að deila lengi um það. „Hvort við fáum það fyrir íslenskum dómstólum er aftur á móti umhugsunarmál. Við munum örugglega áfrýja þessu alla leið til Evrópu. Hvaða skoðun kemur þar upp verður fróðlegt að sjá,“ sagði Helgi.

Spurður hvort um sé að ræða mikið réttlætismál fyrir eldri borgara sagði hann tekjuskerðinguna gríðarlega ef stór hluti af lífeyris fólks sé tekinn með þeim hætti sem nú er gert. „Ríkið telur sig vera í rétti til þess að gera það án þess að útskýra það með nokkrum hætti og samningar og það sem menn töldu sig geta gengið að eftir langa starfsævi hafa breyst einhliða, viljum við segja.“

Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann sagði niðurstöðu héraðsdóms ekki hafa komið sér á óvart en að báðir möguleikar hafi verið nefndir við hann að undanförnu. „Ég er nú ekki löglærður en er bjartsýnismaður að eðlisfari. En þetta fór svona.“

Helgi sagði allt stefna í langhlaup í málinu, enda taki það að minnsta kosti ár, bara að fara með málið fyrir Landsrétt. „Svo er það Hæstiréttur en það má vekja athygli á því að það eru margir í þessum hópi sem munu ekki hafa tíma til þess að bíða,“ bætti hann við.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert