„Ekki eins og maður geti sparkað til baka“

Skjálftanna er vel vart í Grindavík og segir Bogi þá …
Skjálftanna er vel vart í Grindavík og segir Bogi þá harðari og nær en í vor. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á meðan fjölmiðlar birta fréttir þess efnis að skjálftarnir á Suðurnesjum finnist á höfuðborgarsvæðinu hrynja Ikea-hillur eins og flugur og allt hristist í Grindavík. Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík, segir fólk nota kímnina að vopni í þessari hrinu en viðurkennir að það sé langþreytt á að „hristast í heilt ár“.

Líkt og mbl.is hefur greint frá er mikil skjálftavirkni á Suðurnesjum og líkur á gosi aukast. Bogi Adolfsson og félagar hans í björgunarsveitinni Þorbirni segjast þó til í slaginn að nýju ef þörf er á. Menn geti nú ekki hætt í „hálfleik“.

„Maður vonaði nú að við værum laus við þetta helvítis drasl. Það er samt bara þannig að við verðum að vera klárir. Þetta er bara vinna og einhver þarf að vinna hana komi til eldgoss að nýju. Það gengur ekkert að standa og horfa bara á, svo ég tali nú ekki um að hætta. Maður hættir ekki í hálfleik,“ segir Bogi í samtali við mbl.is.

Bogi segist ekki beint hafa vaknað við skjálftann í morgun, sem var 4,2 að stærð, en hafi þó fundið aðeins fyrir honum. Bogi býr nokkur hundruð metrum frá svæðinu þar sem skjálftarnir finnast hvað mest.

Bogi Adolfsson segist til í slaginn að nýju, jafnvel þó …
Bogi Adolfsson segist til í slaginn að nýju, jafnvel þó það þurfi aftur að huga að hlutum á borð við þennan mann sem trítlaði um á hrauninu. Samsett mynd

Þreyta í bænum

Hann segir Grindvíkinga hafa húmor fyrir því að fluttar séu fréttir þess efnis að „skjálftarnir finnist á höfuðborgarsvæðinu“. „Ég setti einmitt inn mynd á Facebook í dag af ganginum heima hjá mér, þar sem allar myndir og drasl í hillum var hrunið í gólfið. Ég spurði því „ætli þeir hafi fundið fyrir þessu á höfuðborgarsvæðinu“,“ segir Bogi hálfhlæjandi.

Hann viðurkennir þó að það gæti ákveðinnar þreytu í bæjarbúum og þá sér í lagi þeim sem yngri eru. „Krakkarnir höfðu gaman af þessu svona framan af en núna í gær veit ég að mörgum börnum í bænum fannst þetta helst til mikið af hinu góða, svona á jólum.“

Spurður hvort ástandið sé ekki keimlíkt því sem var vikurnar fyrir gosið í vor segir hann svo vera. Ekki sé mikinn mun að sjá á kortum frá Veðurstofunni og allt sé þetta að gerast á nokkurn veginn sama svæðinu. „Ef eitthvað þá eru skjálftarnir pínulítið harðari og nær núna.“

Sparkar ekki á móti

Hann segir viðbrögð Grindvíkinga þó ekki alveg þau sömu og í vor. Reynslan rói mannskapinn, að mestu. Sumir séu almennt hræddir við jarðskjálfta og það breytist lítið sama hve oft þeir dynja yfir. Viðbrögð hins almenna bæjarbúa hafi hins vegar róast aðeins.

„Þegar það er búið að hrista þig í heilt ár þá náttúrlega minnka viðbrögðin aðeins. En maður hefur náttúrlega enga stjórn á þessu, það er ekki eins og maður geti sparkað til baka,“ segir Bogi léttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert