Margt óljóst með framkvæmd bólusetningar barna

Bólusetning barna fer ekki fram í Laugardalshöll heldur í húsnæði …
Bólusetning barna fer ekki fram í Laugardalshöll heldur í húsnæði skólanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bólusetningar barna á aldrinum 5-11 ára eru á döfinni og mun verkefnið hefjast nú í annarri viku janúar. Heilsugæslan annast verkefnið og mun bólusetningin fara fram í húsnæði skólanna. Ekki liggur fyrir hvort skólastarf verður lagt niður og ekki liggur fyrir aðgerðaáætlun hjá Reykjavíkurborg til þess að takast á við mögulegan félagslega vanda sem börn geta orðið fyrir, hafni foreldrar þeirra bólusetningu.

Undirbúningsvinna vegna bólusetninganna fór af stað fyrir nokkru og segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, verkefnastjóri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að vinnuhópur skipaður hjúkrunarfræðingum og læknum frá Heilsugæslunni hafi komist að þeirri niðurstöðu að vænlegast væri að framkvæma bólusetningarnar í skólunum. Enginn aðili úr skólasamfélaginu sjálfu var í hópnum.

Ástæða þess að skólarnir urðu fyrir valinu var þá helst til þess að geta hraðað ferlinu sjálfu, að koma bóluefni í þennan hóp sem telur nokkur þúsund einstaklinga á stuttum tíma. Ragnheiður bendir einnig á að fordæmi séu fyrir því að bólusetja í skólunum og bendir á bólusetningar við HPV, rauðum hundum og heilahimnubólgu í þessu samhengi.

Almennt er góð þátttaka í bólusetningum á ungum börnum sem fram fara á heilsugæslustöðvum og því vert að spyrja hvers vegna talin sé brýn nauðsyn að framkvæma þessa bólusetningu í skólunum.

„Eins og ég segi þá snýr þetta fyrst og fremst að hraða verkefnisins og húsnæði heilsugæslunnar veldur þessu ekki. Við erum með á áttunda tug skóla og nítján heilsugæslur. Við værum langt fram eftir ári ef við ætluðum okkur að gera þetta þar og þá þyrftum við að loka heilsugæslunum undir aðra starfsemi til lengri tíma.“

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir Eggert Jóhannesson

Persónuverndarsjónarmiðin flókin

Fyrir liggur að persónuverndarsjónarmiðin verða að vega þungt þegar kemur að bólusetningu barna. Heilsugæslan hefur óskað eftir því að skólastarf verði fellt niður á bólusetningardaginn sjálfan. Eru þá sóttvarnasjónarmið að baki því en ekki síður persónuverndarsjónarmið.

„Ég ítreka það að bólusetningin er að sjálfsögðu val. Þess vegna þarf til dæmis að skrá börnin í bólusetningu en það hefur ekki verið hingað til. Allt miðar þetta að því að enginn verði bólusettur sem ekki hefur óskað eftir því, eða raunar foreldri óski ekki eftir því.“

Bendir hún einnig á að ýmsar ástæður séu fyrir því að foreldrar kjósi að bólusetja ekki börnin sín. Í fyrsta lagi er töluverður fjöldi barna sem hefur nú þegar smitast af veirunni. Sumir kjósi að bíða aðeins og sjá og svo þriðji hópurinn sem kýs að hafna bólusetningu.

Afar mikilvægt sé að vanda vel til verka hvað varðar umræðuna, bæði í skólunum, úti í samfélaginu og heima við. Börnin grípi gjarnan skoðanir foreldra sinna og séu oft ansi „svart-hvít“ í nálgun sinni.

„Við höfum séð þetta í HPV-bólusetningunum í skólunum þar sem einhverjir þiggja ekki bólusetninguna og þá er strax spurt: „Hvað, ætlar þú þá að fá krabbamein?“ Við þurfum að tryggja ábyrga umræðu og kannski bara reyna að finna meðalveg og benda á að það sé bæði eðlilegt að fá bóluefni og að þiggja það ekki.“

Engin áætlun eins og er

Líkt og Ragnheiður bendir á eru börn alla jafna fremur svart-hvít í nálgun sinni á ýmis málefni, taka almennt upp eftir foreldrum sínum og má því ætla að hið sama verði upp á teningnum þegar kemur að bólusetningum.

Mbl.is hefur heyrt af áhyggjum víða úti í bæ af nákvæmlega þessu. Að þar sem bólusett verði í skólunum þá geti börnin séð hverjir þiggja bólusetningu og hverjir ekki. Eins og áður segir liggur ekki fyrir hvort skólastarf verður lagt niður bólusetningardaginn sjálfan.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir í samtali við mbl.is að engin bein aðgerðaáætlun liggi fyrir um hvernig takast eigi á við þann mögulega félagslega vanda sem börn geta staðið frammi fyrir af hálfu skólasystkina sinna, komi í ljós að þau hafi ekki verið bólusett.

„Við nálgumst þetta verkefni eins og önnur sem snúa að samskiptum milli barna, bara með umburðarlyndi og kærleika. Við reynum að gera þetta ekki að umræðuefni, það er, hver er bólusettur og hver ekki og hvað það þýðir.“

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

Helgi tekur sem dæmi mismunandi sjónarmið og deilur sem geta komið upp barnanna á milli þegar kemur að því að setja í skóinn, það séu vitaskuld ekki einungis jólasveinarnir sjálfir sem ákveði það hvað hver fær í skóinn.

– Nú hafa skólar og foreldrafélög samt sent út tilmæli um það hvað jólasveinar mega gefa mikið í skóinn og velti ég því fyrir mér hvort það sé einhvers konar áætlun fyrir hendi til að tryggja að börnin sjái ekki hverjir þiggja og hverjir hafna bólusetningu?

„Já eins og ég segi þá er framkvæmdin í sjálfu sér á forræði Heilsugæslunnar og ég veit að það verður passað upp á þetta. Við þurfum bara að finna jafnvægi í því hvernig sé hægt að bólusetja börnin og virða lífsskoðanir hvers og eins.“

– Það er sem sagt engin áætlun um það hvernig takast eigi á við það að Siggi geri grín að Gunnu vegna þess að „mamma Gunnu er svo klikkuð að vilja ekki bólusetja son sinn?“

„Ekki annað en það að starfsfólk okkar er þaulvant að ræða við börnin um okkar sjónarmið. Svo koma sjónarmiðin ekki síst frá foreldrum. Þar þarf samtalið að byrja, uppsprettan getur ekki verið í skólanum. Þetta er því áskorun á foreldra að tala af yfirvegun um mismunandi sjónarmið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert