Aukaverkanir algengari meðal barna

Aukaverkanir í kjölfar bólusetningar me mRNA-bóluefni eru algengari meðal yngri …
Aukaverkanir í kjölfar bólusetningar me mRNA-bóluefni eru algengari meðal yngri en eldri samkvæmt upplýsingum Lyfjastofnunar. AFP

Aukaverkanir í kjölfar bólusetningar með mRNA-bóluefni eru algengari meðal þeirra sem yngri eru heldur en eldri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lyfjastofnun.

Bóluefnið 90,7% virkt sem vörn gegn Covid-19

Bóluefnið Comirnaty frá Pfizer/BioNTech hefur verið samþykkt til notkunar fyrir aldurshópinn 5-11 ára og verður það bóluefni notað við bólusetningar á þessum aldurshópi hér á landi í Laugardalshöll í næstu viku.

„Klínískar rannsóknir hafa sýnt að bóluefnið er 90,7% virkt sem vörn gegn einkennum Covid-19. Comirnaty inniheldur ekki sjálfa veiruna og getur ekki valdið Covid-19. Ekki er þekkt hversu lengi vörnin varir,“ segir í tilkynningunni.

Þá er einnig tekið fram að börnum 5-11 ára verði gefinn minni skammtur af Comirnaty en þeim sem eldri eru. Nota eigi 10 míkrógrömm í stað 30 míkrógramma. Eins og hjá 12 ára og eldri sé bóluefninu sprautað í vöðva í upphandlegg tvisvar sinnum, og eigi þrjár vikur að líða á milli bólusetninga.

Frá bólusetningu barna á aldrinum 12 til 15 í Laugardalshöll …
Frá bólusetningu barna á aldrinum 12 til 15 í Laugardalshöll í ágúst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um helmingur barna fær höfuðverk í kjölfarið

Fram kemur að algengar þekktar aukaverkanir geri oft vart við sig í kjölfar bólusetninga með mRNA-bóluefni hjá börnum, gjarnan eftir að seinni skammtur er gefin.

„Þessu geta fylgt óþægindi en oftast ganga aukaverkanir til baka á 2-3 dögum".

Þá kemur fram að algengustu aukaverkanir, sem komu fram í klínískri rannsókn hjá börnum 5-11 ára séu verkur á stungustað, þreyta, höfuðverkur, roði og þroti á stungustað, vöðvaverkir og kuldahrollur, niðurgangur, hiti, ógleði og uppköst. Flestir upplifi svo eina eða fleiri af þessum aukaverkunum 1-2 dögum eftir bólusetningu.

Samkvæmt rannsókninni eru lang algengustu aukaverkanirnar hjá börnum 5-11 ára verkur á stungustað eða um 80%. Þá upplifir um helmingur barna þreytu og tæplega þriðja hvert barn fær höfuðverk.

Þegar líkaminn bregst við með þessum hætti er það merki um að hann sé að undirbúa ónæmiskerfið til að verjast veirunni og veita vörn gegn alvarlegum veikindum. Einstaklingsbundið er hvernig líkaminn bregst við bóluefnum, þeir sem hvorki upplifa aukaverkanir né verða veikir eftir bólusetningu eru engu að síður líka vel varðir“.

Segja langvarandi aukaverkanir vera óþekktar

Samkvæmt Lyfjastofnun er ekkert sem bendir til þess að sérstök áhætta fylgi því að bólusetja börn. Þó sé hættan á langvarandi aukaverkunum hvorki þekkt hjá fullorðnum né börnum.

„Þegar bóluefni eiga í hlut koma aukaverkanir almennt fram skömmu eftir bólusetningu. Bóluefnaframleiðendum sem hljóta skilyrt markaðsleyfi er skylt að fylgjast með bóluefninu í klínískum rannsóknum í tvö ár. Þannig berast stöðugt nýjar upplýsingar frá framleiðendum og lyfjayfirvöldum, sem vinna náið saman við eftirlit með bóluefnum gegn COVID-19.

Lyfjastofnun fylgist með þessu bóluefni, sem og öllum lyfjum þann tíma sem þau eru á markaði á Íslandi. Það felst m.a. í því  að allar tilkynningar um aukaverkanir eru metnar af sérfræðingum stofnunarinnar og brugðist er við ef fram koma nýjar eða alvarlegar aukaverkanir“.

Þá eru þeir sem upplifa önnur einkenni sem grunur leiki á að tengist bólusetningu, eða ef einkennin ganga ekki til baka á örfáum dögum, hvattir til að hafa samband við lækni eða annað heilbrigðisstarfsfólk til að láta meta einkenni og fá ráðleggingar. Þá beri heilbrigðisstarfsfólki skylda til að tilkynna grun um alvarlegar, nýjar og óþekktar aukaverkanir til Lyfjastofnunar.

Hægt er að tilkynna grun um aukaverkun með því að fylla út form á vef Lyfjastofnunar.

Frekari upplýsingar um bóluefnið má finna í fylgiseðli Comirnaty, sem einnig er aðgengilegur á vef Lyfjastofnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina