Hertar aðgerðir „millivegur sóttvarnalæknis“

Willum Þórs Þórsson heilbrigðisráðherra ræðir við fréttamenn að loknum ríkisstjórnarfundi …
Willum Þórs Þórsson heilbrigðisráðherra ræðir við fréttamenn að loknum ríkisstjórnarfundi í hádeginu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tíu manna samkomutakmörkun til 2. febrúar er til marks um að verið er að takast á við afbrigði kórónuveirunnar sem er með ótrúlega smithæfni. Þrátt fyrir að fólk veikist síður greinast margir með veiruna daglega, sem síðan veldur álagi á spítalakerfið. 

Þetta sagði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi þar sem aðgerðirnar, sem hafa ekki verið harðari frá upphafi kórónuveirufaraldursins, voru kynntar.

Aðgerðirn­ar taka gildi á miðnætti og gilda til 2. fe­brú­ar.

„Við erum í þeirri stöðu að við verðum að verja spítalakerfið okkar og takast á við þetta,“ sagði Willum.

Spila­söl­um og skemmtistöðum verður lokað og fjöl­menn­ir viðburðir þar sem nei­kvæðum hraðpróf­um er fram­vísað verða ekki heim­ilaðir. 

Sund­laug­ar og lík­ams­rækt­ar­stöðvar verða enn opn­ar og miðast við 50% af leyfi­leg­um há­marks­fjölda. Willum segir að fólk verði að fá að næra anda og líkama og að ekki hafi komið upp smit á þessum stöðum.

Íþróttakappleikir verða áfram leyfðir en áhorfendur bannaðir.

Margt breyst á þremur dögum

Ekki eru nema þrír dagar síðan tilkynnt var um óbreyttar sóttvarnaaðgerðir, þar sem 20 máttu koma saman og hraðprófsviðburðir voru leyfilegir. Willum segir þetta bara sýna hversu erfitt nýja afbrigði veirunnar er viðureignar.

Lok­un­ar­styrk­ir munu bjóðast þeim fyr­ir­tækj­um sem loka þurfa sinni starf­semi en Willum sagðist ekki geta gefið upp nákvæmlega tölu þegar hann var spurður um kostnað vegna Covid-styrkja.

„Við erum að beita harðari takmörkunum sem kemur niður á sérstaklega veitinga- og menningageiranum og þá verðum við að koma með mótvægisaðgerðir,“ sagði Willum og hélt áfram:

„Við þekkjum þetta, kunnum þetta og verðum að gera það sem þarf. Það er erfitt að meta kostnaðinn á þessari stundu en það fer svolítið eftir því hverju framvindur hvert heildarumfangið verður.“

Spurður sagði ráðherra að fleiri einkaaðilar en Klínikin gætu komið og aðstoðað Landspítalann.

„Það eru allir að reyna að gera sitt besta til að finna auka mannskap og koma honum á Landspítalann til að sinna Covid-veikum. Þetta dregur fram þá framtíðarmynd sem við viljum sjá; samspil á milli allra í heilbrigðisgeiranum. Við horfum á heilbrigðisþjónustuna sem eina heild. Þegar búið er að færa spítalann og kerfið upp á neyðarstig vinna allir saman og það er frábært að horfa til þess hugarfars,“ sagði Willum.

Fram kom að loknum ríkisstjórnarfundi að farin hefði verið önnur af þremur leiðum sóttvarnalæknis úr minnisblaði hans. Willum sagði að það þurfti alltaf að meta hlutina með hliðsjón af lögmæti, tilefni og nauðsyn:

„Þess vegna er þessi millivegur sem sóttvarnalæknir boðar farinn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina