Sjö erfiðir dagar að baki

Alls liðu fimm dagar þar sem enga sjúklinga var að …
Alls liðu fimm dagar þar sem enga sjúklinga var að finna á Vogi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfsemin á Vogi er hægt og rólega að taka við sér á ný eftir að loka þurfti sjúkrahúsinu tímabundið þegar að smit greindust meðal starfsmanna og sjúklinga fyrr í mánuðinum. Þetta segir Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi.

Þeir sem lokið hafa sóttkví og fengu neikvæða niðurstöðu úr seinni sýnatöku snéru aftur á fimmtudaginn í síðustu viku en von er á fleirum til baka.

Ekki líður á löngu þar til fjöldi sjúklinga verður enn og aftur kominn upp í 40 en alls liðu fimm dagar þar sem enga sjúklinga var að finna á Vogi. Að sögn Valgerðar var sá tími nýttur vel og voru gólf bónuð, veggir málaðir og hillur settar upp, svo eitthvað sé nefnt.

„Þetta hefur allt gengið upp en auðvitað hafði það áhrif, sérstaklega á þá sem áttu tíma þessa daga sem við tókum enga inn. Það voru sjö dagar sem við tókum enga inn og það var örugglega erfitt fyrir marga af þeim sem að frestuðu komunni. En það eru allir komnir með nýja tíma núna.“

Strangari sóttvarnahólf

Að sögn Valgerðar hefur verið gripið til enn stífari sóttvarnaaðgerða á Vogi í ljósi aðstæðna sem takmarkar samskipti milli sjúklinga enn frekar.

„Húsið er að fyllast en við erum með mun strangari sóttvarnahólf en áður. Nær engin umgengni. Þannig það er öðruvísi að vera á Vogi í dag. [...] Fólkið sem er inni getur verið í ennþá minni samskiptum.“

Hefur þetta ekki slæm áhrif á móralinn?

„Það hefur áhrif á móralinn þessa daga en ég hugsa að þetta verði ekki lengi. Vonandi fer þetta að breytast.“

Hópsmit þrátt fyrir sýnatökur

Valgerður segir hópsmitið hafa komið aftan að starfsfólki Vogs þar sem allir sjúklingar verða að framvísa neikvæðri niðurstöðu úr PCR-prófi áður en þeir eru teknir inn. Þegar smitið greindist innanbúðar fyrr í mánuðinum var það búið að dreifa sér nokkuð vítt meðal starfsmanna og sjúklinga sem gerði það að verkum að loka þurfti starfseminni.

Miðað við ástandið sem ríkir nú í samfélaginu telur Valgerður erfitt að koma í veg fyrir að smit berist aftur á Vog. Hún vonar aftur á móti að með hertari sóttvarnareglum verði hægt að koma í veg fyrir að það dreifist með sama hætti og síðast. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »