Hefði viljað betra samstarf við Sjúkratryggingar Íslands

Einar Hermannsson, formaður SÁÁ.
Einar Hermannsson, formaður SÁÁ. mbl.is/Arnþór

Formaður SÁÁ segir það gefa augaleið að samtökin geti ekki greitt þær 175 milljónir sem Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) krefja þau um vegna tilhæfulausra reikninga og vanefnda á þjónustu og þjónustumagni. Einar Hermannsson, formaður SÁÁ, segir óljóst hvernig bregðast eigi við kæru SÍ til hérðassaksóknara en fyrst þurfi að sjá kæruna.

Í bréfi sem Ari Matthíasson, deildarstjóri eftirlitsdeildar SÍ, sendi Einari 29. desember er bent á tilhæfulausa reikninga vegna viðtala sem veitt voru með símtölum, endurgreiðslu á föstu mánaðargjaldi vegna tilhæfulausrar lokunar á staðþjónustu á tímabilinu október til desember 2020 og endurkrafna vegna unglingadeildar SÁÁ.

Einar segir samtökin þurfa að vita um hvað kæran snýst; hvort hún snúi að öllum áðurnefndum atriðum úr bréfi SÍ eða hluta af þeim. „Við vitum það ekki,“ segir Einar.

Hann segir samtökin ekki hafa útilokað að einhver símtölin hafi verið rangt skráð en samkvæmt samningi skulu þau vera klukkustund. Athugun leiddi meðal annars í ljóst að ráðgjafi hafði dag einn bókað 40 klukkustundir af viðtölum.

Mannlegt að gera mistök

„Við höfum aldrei útilokað að eitthvað af þessum símtölum á topp dögunum hafi verið rangt skráð. Einhver símtöl á þessum Covid-tíma geta hafa verið ranglega skráð en það er ekki þessi fjöldi sem þau eru að tala um,“ segir Einar.

SÍ kallaði eftir gögnum vegna þess en svör reyndust ófullnægjandi en Einar segir SÁÁ aftur ætla að rýna í sín gögn til að sjá hvort eitthvað hafi yfirfarist. Hann segir útilokað að einhver starfsmaður hafi reynt að svindla á kerfinu, enda hagnist enginn á slíkum mistökum.

„Það er í mannlegu eðli að gera mistök,“ segir Einar og bætir við að samtökin hefðu ekki getað hagað þjónustu sinni með öðrum hætti á haustmánuðum 2020 þegar varla mátti hitta nokkurn mann vegna kórónuveirufaraldursins.

„Við höfum lengi kallað eftir því við Sjúkratryggingar hvernig við eigum að vinna á tímum Covid, þegar við getum ekki verið með fólk í húsinu. Það hafa ekki borist svör við því,“ segir Einar sem áður hafði nefnt að hann óskaði eftir samráðsvettvangi SÁÁ og SÍ vegna þessa máls.

mbl.is