Fjöldi fólks losnaði úr sóttkví á miðnætti

Fólk þarf þó ennþá að fara í PCR-próf, fái það …
Fólk þarf þó ennþá að fara í PCR-próf, fái það einkenni eftir að hafa verið útsett úti í samfélaginu. mbl.is/Árni Sæberg

Aðeins þeir sem útsettir voru fyrir smiti á heimili sínu eða dvalarstað þurfa að sæta sóttkví áfram samkvæmt þeim nýju reglum sem tóku gildi á miðnætti. Aðrir eru frjálsir ferða sinna.

Fólk þarf þó ennþá að fara í PCR-próf, fái það einkenni eftir að hafa verið útsett úti í samfélaginu. Fái það ekki einkenni er því aftur á móti frjálst að sleppa sýnatöku, þrátt fyrir að hafa fengið strikamerki, segir í tilkynningu frá almannavörnum.

„Strikamerki sem berast skal einungis nota af þeim sem útsettir eru innan heimili. Aðrir sem útsettir eru utan heimila og kunna að fá strikamerki geta sleppt því að mæta í sýnatöku,“ segir í tilkynningunni.

Þá þurfa þríbólusettir og tvíbólusettir sem hafa smitast, ekki að fara í sóttkví, heldur geta kosið smitgát í stað hennar, það er að segja, beri grímu í margmenni og þegar ekki er hægt að viðhafa tveggja metra nándarreglu, forðast mannmarga staði og sleppa umgengni við viðkvæma einstaklinga.

Smitgát sú endar þó með PCR-prófi á fimmta degi.

Einstaklingar í sóttkví eða smitgát sem dvelja á sama heimili og einstaklingur í einangrun,  losna þó ekki úr sinni sóttkví eða smitgát fyrr en einum sólarhring eftir að einangruninni lýkur.

Fyrir breytinguna voru um 13.300 einstaklingar í sóttkví. Ekki liggur fyrir hversu stór hópurinn er sem losnar en vottorð má finna á Heilsuveru, segir í tilkynningunni frá almannavörnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert