Feðgin sneru sér saman að kjólum

Áskell og Laufey.
Áskell og Laufey. Ljósmynd/Áskell Þórisson

Ég hef skoðað mörg hundruð tískuvefi úti um allan heim, en hvergi hef ég séð neinn vinna með ljósmyndir með þeim hætti sem við Laufey gerum,“ segir Áskell Þórisson ljósmyndari, en hann stofnaði ásamt dóttur sinni Laufeyju Dóru fyrirtækið Laufeyju sem framleiðir kjóla úr efni með áprentuðum ljósmyndum Áskels. 

Ítarlegt viðtal við feðginin er að finna í Morgunblaðinu í dag.

„Ég hef tekið ljósmyndir í mörg ár. Ég starfaði sem blaðamaður og var ritstjóri í 12 ár hjá Bændablaðinu sem ég stofnaði fyrir Bændasamtökin fyrir margt löngu. Ég tók því mikið af myndum af búsmala, fólki og dráttarvélum, en þegar ég var hættur í blaðamennskunni og var einhvern daginn að skoða nærmyndir í tölvunni sem ég hafði tekið úti í náttúrunni, þá kom Laufey dóttir mín og sagði: „Af hverju setjum við þetta ekki á kjóla?“ Hún sá eitthvað sem mér hafði aldrei dottið í hug, möguleikann á að nýta myndirnar mínar í munstur á kjólaefni. Þar með fór boltinn að rúlla.“

Konur geta sent okkur málin

Áskell segir að Laufey hafi kallað saman álitshóp kvenna sem sögðu þeim hvað þær vildu sjá í kjólum, hvers konar snið og annað slíkt.

„Í framhaldinu höfðum við samband við unga konu, Sunnu Dís Hjörleifsdóttur, sem var nýútskrifuð úr hönnunarskóla í Kaupmannahöfn, og hún gerði fyrir okkur þrjú kjólasnið. Skólabróðir hennar, grafíski hönnuðurinn Christian Astner, hjálpaði okkur við samsetningu mynda og frágang fyrir prentsmiðju. Við fundum svo prentsmiðju á Englandi sem prentaði munstrið á efni. Á Akranesi fundum við textíllistakonuna og kennarann Eygló Gunnarsdóttur, sem saumaði fyrstu kjólana, en núna sér Sjöfn Magnúsdóttir, klæðskeri á Akranesi, um það,“ segir Áskell og bætir við að þau Laufey hefðu aldrei getað komið verkefninu í framkvæmd án styrks frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands og fyrir það séu þau þakklát.

Heimasíða er í smíðum, en hægt er að skoða bækling og panta kjóla á heimasíðu Áskels, www.askphoto.is, eða með því að senda póst á netfangið laufeyinfo@gmail.com.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert