Gagnrýna „forkastanlega“ grein ráðherra

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þessi grein hæstvirts innanríkisráðherra er með öllu forkastanleg því að svo virðist sem ráðherra átti sig ekki á innihaldi laga í málaflokknum sem hann stýrir,“ sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar á Alþingi í morgun.

Þingmenn Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar gagnrýndu Jón Gunnarsson innanríkisráðherra harðlega vegna greinar sem hann birti á Vísi í gær.

Fyrr í vikunni höfðu nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn gagnrýnt afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsóknum um ríkisborgararétt til Alþingis.

Ráðherra sagði meðal annars í áðurnefndi grein að þingmenn hefðu farið með rangt mál og þingmenn sem segðu að sér væri annt um virðingu Alþingis þyrftu að hugsa sinn gang.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir Ljósmynd/Aðsend

Í grein á Vísi í gær, sem hæstvirtur innanríkisráðherra skrifaði undir titlinum „Ríkisborgararéttur og Alþingi“, talaði ráðherra af miklum hroka gagnvart þinginu,“ sagði Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata.

Helga Vala sagði ráðherra leyfa sér að tala um tvöfalt kerfi þar sem jafnræði ríki ekki; útvaldir fái hér ríkisborgararétt með lögum.

Það er alveg skýrt í lögum um veitingu ríkisborgararéttar að Alþingi skal veita ríkisborgararétt. Aðstæður fólks bjaga jafnræði. Það er þannig að þegar ríkisborgararétturinn er veittur samkvæmt stjórnvaldsákvörðun þá þarf að uppfylla öll lagaskilyrði en þess vegna, og einmitt þess vegna, er Alþingi veitt þessi undanþáguheimild fyrir þá einstaklinga sem geta ekki uppfyllt öll lagaskilyrðin. Ég hvet hæstvirtan ráðherra til að kynna sér aðstæður fólks sem er í neyð, sem hefur jafnvel búið hér frá fæðingu, sem hefur jafnvel búið hér áratugum saman en getur ekki uppfyllt öll lagaskilyrði, til dæmis vegna þess að það er ekki læst, vegna þess að það getur ekki lært annað tungumál, vegna þess að það getur ekki lært að lesa letur eins og við notum hér eða hreinlega vegna heilsufarsástæðna. Þess vegna getur það ekki uppfyllt lagaskilyrði til að fá ríkisborgararétt samkvæmt stjórnvaldsákvörðun. Þetta er undanþáguheimild sem Alþingi verður að hafa einmitt vegna skoðana eins og ráðherra hefur nú sýnt,“ sagði Helga Vala.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert