Hópsmit á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð

Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi.
Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi. mbl.is/Golli

Um helmingurinn af þeim 66 sem eru í varanlegri dvöl á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi hefur smitast af kórónuveirunni.

Að sögn Kristjáns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra hjúkrunarheimilisins, eru veikindin óveruleg. Hann segir hugsanlega vera von á fleiri smitum áður en þau byrja að ganga niður, sem ætti að verða um helgina.

Þetta er í fyrsta sinn sem hópsmit kemur upp í Sunnuhlíð. Kristján segir mjög erfitt að einangra fólk, enda er húsnæðið er komið til ára sinna. Ekki er vitað hvernig veiran barst þangað inn. Starfsfólk hefur einnig smitast.

„Við eigum úrvalsgott starfsfólk sem bjargar þessu, það er mikið atriði. Við erum búin að vera í viðbragðsstöðu síðustu tvö ár og nokkuð vel undirbúin en svo er það starfsfólkið sem stendur vaktina,“ segir hann.

Að sögn Kristjáns hefur áður þurft að loka dagdvölinni í Sunnuhlíð tímabundið vegna veirunnar, auk þess sem 9 af  þeim 10 sem dvelja á hjúkrunarheimilinu Seltjörn á Seltjarnarnesi smituðust fyrr í þessum mánuði. Þar náðist að einangra fólk mun betur enda húsið nýrra en í Sunnuhlíð.

mbl.is