Flestir komi sjálfir með áfengi á skíðasvæðið

Hlíðarfjall á Akureyri.
Hlíðarfjall á Akureyri. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Fjölmennt var á skíðasvæði Akureyringa í Hlíðarfjalli um helgina og var helgin ein sú stærsta hingað til. Hafin var sala á áfengi í veitingasölum skíðasvæðisins eftir að bæjarráð Akureyrar veitti svæðinu vínveitingaleyfi í síðasta mánuði.

Að sögn Brynjars Helga Ásgeirssonar, forstöðumanns Hlíðarfjalls, fór áfengissalan sem slík vel af stað en var þó eitthvað af fólki sem kom inn á skíðasvæðið með sitt eigið áfengi.

Hann segir aðeins léttvín vera selt í veitingasölunni en að margir hefðu verið að smygla sterkara áfengi inn á skíðasvæðið.

„Okkur finnst betra að fólk sé bara með léttvín inni á veitingastað í staðinn fyrir að það sé að gera svona. Þetta er bara það sem er og verður og það er erfitt að stöðva þetta því miður,“ segir Brynjar í samtali við mbl.is.

Erfitt að auka eftirlit

Hann segir engar tilkynningar hafi borist um slys eða annað slíkt vegna áfengisdrykkju en þó hafa einhverjir kvartað yfir drykkju á samfélagsmiðlinum Twitter.

Í einni Twitter-færslu var talað um að barnamót hafi verið í fjallinu um helgina og hafi ekki hafi verði hægt að komast inn í skála þar sem öll sæti hefðu verið tekin af „drukknum veipandi ungmennum“.

Brynjar segist hafa heyrt af umræddri færslu og segir vandann ekki stafa af áfengissölunni heldur af því að ungmenni hafi verið að smygla sterku áfengi inn á svæðið.

„Það er fáranlegt að umræðan snúist alltaf um það hvort megi selja áfengi á veitingastöðum þegar fólk er nú þegar að drekka, en þá er það allavega undir eftirliti,“ segir Brynjar.

Hann segir að erfitt sé að auka eftirlit með áfengisdrykkju vegna fjölda starfsfólks.

„Við erum bara með vissan fjölda af starfsfólki, það er rosa erfitt fyrir okkur að vera að auka eftirlit með þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert