Gæti tekið viku að opna sundlaugina á ný

Ófremdarástand blasti við starfsmönnum sundlaugarinnar í Vík í Mýrdal í morgun eftir sandfokið sem gekk yfir í óveðrinu í gær. Tíðir gestir laugarinnar gætu þurft að bíða með næstu heimsókn í allt að viku á meðan starfsmenn hreinsa til en laugin hefur verið lokuð í dag.

Jakub Kaźmierczyk, starfsmaður laugarinnar, segir mögulegt að hreinsunarstarfið taki allt að tvo daga. Hins vegar sé ekki hægt að ráðast í það strax fyrr en veðrið hefur skánað en erfitt sé að moka sandinn í miklum kulda. Því gæti tekið viku þar til gestum verður hleypt aftur í sundlaugina.

Hann bindur þó vonir við að hægt verði að opna heitapottinn og gufuna fyrr, eða um leið og veðrið er orðið sæmilegt. Lokunin mun þó ekki koma til með að raska skólasundi en það er einungis stundað á haustin og vorin í Vík.

Ástandið sem blasti við starfsmönnum laugarinnar í morgun.
Ástandið sem blasti við starfsmönnum laugarinnar í morgun. Ljósmynd/Jakub Kaźmierczyk

Bjóst við slæmu ástandi

Jakub segir ástandið á lauginni ekki hafa komið honum á óvart þegar hann mætti til vinnu í dag enda hafi ásýnd bæjarins út um svefnherbergisglugga hans í morgun gefið til kynna á hverju væri von. 

Ljósmynd/Jakub Kaźmierczyk

Hann viðurkennir þó að hann hafi aldrei áður orðið var við slíkt umfang af sandi frá því hann hóf störf í sundlauginni.

Hann veltir því upp í gamni sínu hvort það sé því ekki kominn tími á að tökur á nýrri Kötlu seríu hefjist svona í ljósi þess að leikmyndin er til staðar.

Ljósmynd/Jakub Kaźmierczyk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert