Fullorðnir verði að læra að hlusta

Salvör Nordal, umboðsmaður barna.
Salvör Nordal, umboðsmaður barna. Kristinn Magnússon

„Meginmarkmiðið er auðvitað að heyra sjónarmið barnanna og fá niðurstöður sem við getum unnið með,“ segir Salvör Nordal um Barnaþing, sem haldið verður í annað sinn dagana 3.-4. mars.

Salvör segir markmið Barnaþings eiginlega vera þríþætt. Fyrir það fyrsta sé mikilvægt að kanna hvað börn hafi að segja og vinna úr niðurstöðunum. „Núna hefur Alþingi heitið því í stefnu um „barnvænt Ísland“, sem var samþykkt síðasta vor, að það verði unnið mjög markvisst með tillögur Barnaþings.“ Hún segir það mikilvægt að stjórnvöld taki þennan lýðræðisvettvang alvarlega, að þau skuldbindi sig til þess að taka mark á því sem þar kemur fram.

Í öðru lagi segir Salvör það vera valdeflandi fyrir börn sem taka þátt að læra að taka þátt í svona lýðræðislegri samkomu og koma sínum sjónarmiðum á framfæri. „Og svo er það þriðja atriðið að börn og fullorðnir tali saman og læri að tala saman á jafningjagrundvelli. Fullorðni hópurinn er fólk sem er vant að vera við stjórnvölinn svo það þarf að temja sér að taka ekki alveg yfir umræðuna heldur hlusta og taka þátt á jafningjagrundvelli. Svo þetta er þjálfun í mörgu sem skiptir máli.“

Allt annar veruleiki

Salvör minnir á að börn þekki best sjálf hvernig það sé að alast upp í samtímanum.

„Börn sem alast upp í dag búa við allt annan veruleika heldur en til dæmis mín kynslóð gerði. Krakkar eru með síma og tölvu og alast upp við allt það áreiti sem því fylgir, þau vita miklu betur en ég hvernig er að alast upp í dag. Ég hef ekki hugmynd um það þótt ég geti reynt að ímynda mér það,“ segir hún.

„ Ég er heldur ekki í skóla. Þau eru með alls konar ábendingar um sitt skólaumhverfi, það þekkja börnin best. Þau vita hvað þarf að laga á skólalóðinni, þau vita hvar þeim finnst þau vera örugg og svo framvegis. Þau vita hvað er í gangi á milli krakka á netinu. Þetta er þeirra heimur og við höfum ekki aðgang að honum án þess að hlusta á þeirra skoðanir og reynslu.“

Rætt var við Salvöru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert