Ísland aðstoði nágrannalönd Úkraínu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir kostnaðinn við að leigja …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir kostnaðinn við að leigja eða kaupa íbúð í Póllandi vera fjórðung eða þriðjung af því sem hann er á landi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, telur að Ísland þurfi að taka á móti flóttamönnum frá Úkraínu en einnig aðstoða nágrannalönd Úkraínu sem taka á móti fólk þaðan.

Þetta sagði hann í umræðu um ástandið í Úkraínu og áhrif þess á Ísland á Alþingi í dag.

„Nú hafa um 350.000 manns flóttamenn farið yfir landamærin til Póllands. Menn geta rétt ímyndað sér hvort það sé ekki álag að taka á móti fjölda sem samsvarar allri íslensku þjóðinni á fáeinum dögum.

Íslensk stjórnvöld ættu því að hugleiða að veita beinan styrk til þessara ríkja hvað varðar til að mynda húsnæði og aðrar nauðsynjar. Kostnaðurinn við að leigja eða kaupa íbúð í Póllandi er fjórðungur eða þriðjungur af því sem hann er á Íslandi og með slíkum stuðningi geta íslensk stjórnvöld veitt mikinn stuðning hlutfallslega,“ sagði Sigmundur.

Ekki rétt að loka á rússneska miðla

Jafnframt telur Sigmundur mikilvægt að Vesturlöndin standi vörð um frjálsa umræðu, líka ruglið.

„Það er mikilvægt að þingið verði upplýst og taki þátt í umræðu um aðgerðir sem gripið verður til vegna innrásarinnar en um þær aðgerðir hefur að langmestu leyti verið samstaða. Það er helst að maður velti fyrir sér hvort það sé rétt að loka á rússneska fjölmiðla.

Ég hallast að því að það væri betra að við á Vesturlöndum getum sagt það að hér leyfum við frjálsa umræðu, líka ruglið, á meðan í Rússlandi er verið að loka fyrir ákveðna fjölmiðla. Ég held að við getum treyst borgurum okkar til að meta hvað er rétt og rangt.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir segir að á næstu dögum muni …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir segir að á næstu dögum muni aðrar 150 milljónir króna verða veittar til mannúðaraðstoðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland geti ekki veitt hergögn

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði í ræðu sinni á Alþingi í dag að Ísland hafi veitt 150 milljónir króna til mannúðaraðstoðar og að sú upphæð hafi skiptst jafnt á milli Alþjóðaráðs Rauða krossins, Úkraínusjóðs samhæfingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Þá mun ríkisstjórnin á næstu dögum veita aðrar 150 milljónir króna til frekari mannúðaraðstoðar.

Þá minnti Þórdís Kolbrún á að Ísland gæti ekki fylgt fordæmi annarra landa sem hafa veitt Úkraínu í té hergögn þar sem við værum herlaust ríki.

„Sem herlaust ríki getum við eðli máls samkvæmt ekki lagt fram hergögn eða annan sérhæfðan varnarbúnað en við höfum svarað kalli úkraínsku þjóðarinnar um liðsinni við birgðaflutninga með því að leggja til afnot af fraktflugvél.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert