Hálfur milljarður í vaskinn vegna skila

Mikil verðmæti fara forgörðum við framleiðslu og sölu matvæla, við …
Mikil verðmæti fara forgörðum við framleiðslu og sölu matvæla, við flutning hráefnis til landsins og við notkun á heimilum og í mötuneytum. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

Áætla má að verðmæti vara sem verslanir skila til innlendra framleiðenda sé um 400 til 500 milljónir króna á ári. Stór hluti af þessum afurðum fer á haugana en eitthvað er endurnýtt eða selt með afslætti. Mun meiri verðmæti fara í súginn þegar bætt er við innfluttum vörum sem renna út á tíma eða fara jafnvel ekki í verslanir, matarsóun á heimilum, í skólum, mötuneytum og víðar. Heildarfjárhæðin gæti nálgast milljarð. Samtökin Vakandi eru að athuga hvort hægt sé að stofna litla verslun til að taka við vörum sem eru að nálgast síðasta söludag og selja þær með miklum afslætti.

„Þessi skilaréttur er sérkennileg regla. Það er eins og búðirnar séu að leigja vörurnar af innlendum framleiðendum en kaupa þær af innflytjendum,“ segir Rakel Garðarsdóttir, stofnandi umhverfissamtakanna Vakandi, sem vinna að vitundarvakningu um sóun matvæla.

Verða að láta að vilja verslana

Vakandi vakti á dögunum athygli á frásögn Hrannar Hjálmars um matarsóun þar sem kjötvinnsla urðaði hundruð kílóa af fullkomlega boðlegum kjötvörum, að sagt var. Málið var tekið upp á vef Mannlífs. Þar kom fram í viðtali við markaðsstjóra Norðlenska-Kjarnafæðis sem átti umræddar vörur að skil úr verslunum kostuðu fyrirtækið um 200 milljónir króna á ári. Sumt sé ekki hægt að endurnýta.

Fjallað er um matarsóun í nýlegu fréttabréfi Sláturfélags Suðurlands. Þar kemur fram að SS endurgreiddi verslunum 160 milljónir króna vegna vöruskila á síðasta ári, „sem er í hróplegu ósamræmi við kröfur neytenda um minni matarsóun. Það segir sig sjálft að ekki er hægt að skila innfluttum kjötvörum og veikja vöruskil því samkeppnisstöðu innlendra vara.“ Einnig kemur fram að erfitt sé fyrir eitt fyrirtæki að hætta að leyfa vöruskil. Í þeirri samkeppni sem ríkir á markaðnum hafi framleiðendur látið að vilja verslana og tekið á sig vöruskil gegn því að fá gott hillupláss. Ef einhver skeri sig frá í þessu efni hafi það verulega neikvæð áhrif á viðskipti. Bent er á að breytt viðhorf neytenda og aukin umhverfisvitund muni leiða til breytinga á þessu sviði í náinni framtíð.

Rakel segir vitað að framleiðendur hafi ekkert að gera við þær vörur sem þeir fái til baka. Þeir taka vörurnar þegar tveir eða þrír dagar eru í síðasta söludag.

Rakel Garðarsdóttir.
Rakel Garðarsdóttir. Morgunblaðið/Styrmir Kári

Verslun með skilavörur?

„Ég er að skoða það hvort ekki sé hægt að byggja brú þarna á milli. Setja upp litlar verslanir sem taka við þessum vörum og selja á 75-90% afslætti. Þar geti allir keypt inn, fólk getur gert það af umhverfisástæðum, fólk sem hefur lítið á milli handanna og fólk sem einfaldlega vill spara. Með þessu fyrirkomulagi græða allir. Við sjáum slíkar verslanir í mörgum nágrannalöndum okkar en við erum oft nokkrum árum á eftir, sérstaklega í umhverfismálunum,“ segir Rakel.

Hún segist hafa haft samband við alla sem tengjast þessum málum, þá sem séu í viðskiptum með vörurnar, ýmis samtök, ráðuneytið og hjálparsamtök. Samtökin vilji gera þetta í samvinnu við sem flesta.

Rakel segir að það hafi ekki verið ætlun samtakanna að standa í verslunarrekstri en ef enginn annar taki málið að sér geti komið til greina að þau geri það. Hún segir að þrátt fyrir aukna umræðu virðist matarsóun ekkert hafa minnkað hér á landi. „Það kemur mér á óvart að við skulum ekki hafa leyst þetta vandamál,“ segir hún.

Tvívíð strikamerki hjálpa

Með svokölluðum tvívíðum strikamerkjum má auka upplýsingar sem fylgja vörum inn í verslanir. Markmiðið er að vörurnar verði frekar seldar þar en skilað og auðvelda baráttuna gegn matarsóun. Sláturfélag Suðurlands er að innleiða slík strikamerki.

Notkun tvívíðs strikamerkis gerir verslun kleift að koma á sjálfvirku kerfi þar sem allar vörur sem eiga tvo daga eða minna í síðasta söludag eru með til dæmis 30% afslátt á kassa. Einnig er það hluti af neytendavernd að hafa lotunúmer framleiðslunnar inni í merkinu. Ef kemur til innköllunar vöru vegna galla er auðvelt að skrá það og þá er ekki hægt að skanna þær vörur á kassa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert