Ekki til þess að verða milljónamæringur

„Þetta er auðvitað erfiður bransi, það er ekkert hægt að neita því,“ segir María Rán Guðjónsdóttir, annar eigenda bókaforlagsins Angústúru, þegar hún er spurð hvernig það sé að halda rekstri forlags gangandi hér á landi.

„Maður fer kannski ekki í þennan bransa til þess að verða milljónamæringur. Það er meira ástæðan að maður vill leggja eitthvað til þessarar flóru, inn í bókmenninguna,“ bætir Þorgerður Agla Magnúsdóttir samstarfskona Maríu Ránar við. 

„En svo hefur okkur verið vel tekið. Þetta er stöðug endurskoðun, hvað er að ganga og hvað er ekki að ganga. Þannig maður þarf bara að vera með aðhald,“ segir María. 

Stuðningur frá hinu opinbera skiptir sköpum

„Við lítum á þetta sem menningarstarfsemi og þá skiptir miklu máli að stuðning frá hinu opinbera,“ segir Þorgerður Agla.

Það muni mikið um útgáfustyrki og þýðingarstyrki og eins þá endurgreiðslu, sem hið opinbera er farið að bjóða upp á, á hluta af kostnaði við framleiðslu á bókum. Það hafi skipt sköpum, sérstaklega síðastliðin tvö ár.

Eigendur Angústúru voru gestir í Dagmálum og sögðu frá starfinu, hugmyndum sínum og hugsjón í bókaútgáfunni. 

mbl.is