Viðbúið að fleiri börn þyrftu að leggjast inn

Í gær lágu átta börn á Landspítalanum með Covid.
Í gær lágu átta börn á Landspítalanum með Covid. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frá áramótum hafa tæplega 30 þúsund börn greinst með Covid en fram að því voru þau á bilinu tvö til þrjú þúsund. Valtýr Stef­áns­son Thors, sér­fræðing­ur í smit­sjúk­dóm­um barna, segir þennan fjölda frá áramótum skýra spítalainnlagnir barna með Covid en í gær lágu átta börn á Landspítalanum með veiruna.

Hann segir að síðustu vikur hafi alltaf eitt eða fleiri börn verið inniliggjandi með Covid. „Sum barnanna, eins og núna, liggja ekki öll inni vegna Covid. Þau leggjast inn út af einhverju öðru en reynast vera með Covid við skimun þegar þau koma á spítalann,“ segir Valtýr í samtali við mbl.is.

Valtýr bætir því við að aukning innlagna barna með veiruna komi ekki á óvart og það sé gott að búið sé að bólusetja stóran hóp krakka á aldrinum 5-12 ára.

Veiran óútreiknanleg

„Þó að bólusetningin veiti ekki frábæra vörn gegn smiti þá er líklegt að hún veiti vörn gegn alvarlegri veikindum,“ segir Valtýr.

Hann segir að svo virðist sem ótrúlega margir þættir spili inn í hvernig veiran fari í krakka; líkt og fullorðna. Margir krakkar sem læknar höfðu áhyggjur af rúlla í gegnum veiruna áreynslulítið á meðan hraustir krakkar verða lasnir.

Mikið álag er á Barnaspítalanum.
Mikið álag er á Barnaspítalanum. mbl.is/Hjörtur

Töluverður fjöldi áhyggjufullra foreldra hefur haft samband undanfarið og segir Valtýr mikið álag á Barnaspítalanum en þangað leita mun fleiri börn en lögð eru inn. „Það er talsvert álag á bráðamóttökunni okkar vegna Covid, fyrir utan allt annað.“

Jafnvægi myndist vonandi á næstunni

Stjórnendur Landspítala hafa talað um að nú þurfi að komast í gegnum skafl smita og innlagna áður en þeim fari fækkandi. Valtýr segir vonina þá að meðan tímanum myndist eitthvert jafnvægi en erfitt sé að spá fyrir um hvenær það verði:

„Mögulega á næstu vikum eða mánuðum að því gefnu að ekki komi upp nýtt afbrigði og við byrjum upp á nýtt.“

Valtýr segir að sóttvarnayfirvöld hafi tæklað ástandið á þessum Covid-tímum til fyrirmyndar frá upphafi. Hann bendir á að núna, eftir að öllum takmörkunum var aflétt, séu töluvert fleiri dauðsföll en áður sem undirstriki mikilvægi takmarkana.

Spurður hvort farið hafi verið geyst í að aflétta öllum takmörkunum segist Valtýr ekki vera viss.

„Á endanum þurfti að aflétta og almenningur vildi ekki lengur taka þátt í því og þá er tilgangslaust að hafa takmarkanir. Úthaldið var búið en ég veit ekki hvort það hefði verið hægt að gera þetta öðruvísi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert